Hoppa yfir valmynd

Álagsgreiðslur heilbrigðisstofnana til starfsfólks vegna COVID-19

Álagsgreiðslur heilbrigðisstofnana til starfsfólks vegna COVID-19 - myndMynd: Landspítali / Þorkell

Heilbrigðisráðuneytið hefur sent erindi til heilbrigðisstofnana vegna álagsgreiðslna til heilbrigðisstarfsfólks sem staðið hefur í framlínunni vegna COVID-19. Ráðgert er að álagið verði greitt út 1. júlí. Álagsgreiðslurnar nema samtals 1,0 milljarði króna með launatengdum gjöldum, í samræmi við ákvörðun Alþingis sem birtist í fjáraukalögum nr. 36/2020.

Samkvæmt fjáraukalögunum skal greiða því starfsfólki sem staðið hefur í framlínunni í baráttunni við COVID-19 faraldurinn sérstaka launaauka í formi eingreiðslu. Í greinargerð með lagafrumvarpinu segir að greiðslurnar verði nánar útfærðar af heilbrigðisráðuneytinu og forstöðumönnum viðkomandi stofnana. Þar kemur einnig fram að áætlaður fjöldi starfsfólks sem geti fengið þessar greiðslur sé um 3000 manns en það er sá fjöldi starfsmanna sem hefur á einhverjum tíma þurft að nota hlífðarbúning, auk fleira starfsfólks sem staðið hefur í framlínunni.

Í samræmi við ákvörðun Alþingis renna 750 milljónir króna til álagsgreiðslna starfsfólks á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri en 250 milljónir króna skiptast á milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnananna í heilbrigðisumdæmum landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Stærstur hluti fjárins, samtals 670 milljónir króna, rennur til álagsgreiðslna á Landspítala, 80 milljónir króna til Sjúkrahússins á Akureyri og 80 milljónir króna til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en 170 milljónir króna deilast á milli stofnana í heilbrigðisumdæmum með hliðsjón af stærð stofnananna og umfangi smita og fjölda tekinna sýna í umdæmum hlutaðeigandi stofnana.

Forstöðumenn stofnananna sem í hlut eiga útfæra nánar tilhögun álagsgreiðslna á sinni stofnun en stefnt er að því að þær geti komið til útborgunar 1. júlí.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics