Hoppa yfir valmynd

Breytt ferðaráð íslenskra stjórnvalda

Þann 14. mars sl. gaf ríkisstjórnin út ferðaráðleggingar þar sem Íslendingum var ráðið frá ónauðsynlegum ferðalögum til útlanda og þeir sem voru á ferðalagi erlendis voru hvattir til að íhuga að snúa heim. Var það gert í ljósi umfangsmikilla sóttvarnaraðgerða og ferðatakmarkana erlendra stjórnvalda vegna heimsfaraldurs og takmarkaðs flugframboðs. Í kjölfarið aðstoðaði borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins þúsundir Íslendinga á leið þeirra heim til Íslands.

Nú þegar faraldurinn er í rénun í Evrópu og landamæri flestra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins hafa opnast Íslendingum hafa þessar ráðleggingar verið endurskoðaðar. Ferðaráð stjórnvalda voru sett fram vegna þeirra óþæginda sem Íslendingar á ferðalögum erlendis gætu orðið fyrir vegna aðgerða erlendra stjórnvalda sem fólust bæði í víðtækum sóttvarnaraðgerðum og ferðatakmörkunum. Þessum aðgerðum hefur nú að miklu leyti verið aflétt á Evrópska efnahagssvæðinu og er því ekki lengur ástæða til að vara við ónauðsynlegum ferðum á þeim grundvelli til þeirra ríkja Evrópu sem Íslendingar geta ferðast til án sérstakra skilyrða. Áfram er Íslendingum ráðið frá ónauðsynlegum ferðum utan Evrópu vegna ferðatakmarkana og sóttvarnarákvæða sem þar kunna að vera í gildi.

Þá er vakin athygli á því að skilgreining sóttvarnarlæknis á áhættusvæðum vegna smithættu er áfram í gildi. Vegna smithættu varar sóttvarnarlæknir enn við ferðum á áhættusvæði. Öllum þeim sem hafa dvalið á áhættusvæðum er skylt að sæta sóttvarnaraðgerðum á landamærum, þ.e. undirgangast skimun við komuna til landsins eða sæta tveggja vikna sóttkví. 

Hafa ber í huga að aðstæður geta breyst hratt og hafa flest samstarfsríki Íslands varað við því að ekki verði um heimflutninga að ræða líkt og þegar heimsfaraldurinn skall á snemma árs 2020. Heimflutningar Íslendinga byggðu á samstarfi við þessi ríki og því er ekki gert ráð fyrir að utanríkisþjónustan geti aðstoðað Íslendinga með sama hætti og þá ef aðstæður breytast. Ferðalangar eru því hvattir til að kynna sér vel reglur og aðgerðir þeirra ríkja sem þau hyggjast heimsækja sem og skilmála þjónustuaðila og tryggingafélaga áður en lagt er af stað í ferðalag til útlanda.

Ferðaráð utanríkisráðuneytisins

Upplýsingasíða stjórnvalda um COVID-19: www.covid.is

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics