Hoppa yfir valmynd

Vinnumálastofnun fær allt að 100 milljóna króna aukafjárveitingu vegna COVID-19

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra - mynd

Vinnumálstofnun fær allt að 100 milljóna króna viðbótarfjármagn til reksturs stofnunarinnar vegna aukinna verkefna í tengslum við COVID-19. Þetta kynnti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, í ríkisstjórn í dag sem hluta af aðgerðarpakka stjórnvalda vegna COVID-19.

Fjárveitingin verður nýtt til að ráða 35 einstaklinga til starfa, tímabundið til sex mánaða, en mikil þörf er fyrir aukinn mannafla hjá stofnuninni. Þá verður ýmis stoðþjónusta efld, svo sem tölvuþjónusta og upplýsingagjöf um ýmsa tölfræði, auk þess sem mikilvægt er að vinna spár um ástand og horfur á vinnumarkaði til framtíðar litið. Vinnumálastofnun mun leggja upp með að ráða sem flesta til þessara starfa úr hópi skráðra atvinnuleitenda hjá stofnuninni.

Vinnumálastofnun hafa borist samtals um 33.800 umsóknir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli síðan opnað var fyrir umsóknir um úrræðið þann 25. mars síðastliðinn. Það sem af er apríl hafa stofnuninni jafnframt borist um 2.200 umsóknir frá einstaklingum sem eru að fullu skráðir án atvinnu sem er viðbót við þá 14.200 einstaklinga sem þegar voru að fullu skráðir án atvinnu í lok mars 2020. Miðað við núverendi forsendur munu því um 50.000 einstaklingar fá greiddar atvinnuleysisbætur að fullu eða að hluta á móti skertu starfshlutfalli í lok apríl.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „COVID-19 faraldurinn hefur haft mjög mikil áhrif á vinnumarkaðinn. Heilu atvinnugreinarnar eru lamaðar og ljóst er að sá fjöldi fólks sem mun þurfa að nýta sér þjónustu Vinnumálastofnunar er án fordæma. Þetta hefur haft í för með sér gríðarlegt álag á stofnunina og þvi nauðsynlegt að styrkja frekar þjónustu hennar. Í öllum okkar aðgerðum er það fyrst og fremst skylda okkar að tryggja stöðu heimilanna og framfærslu fjölskyldna í landinu og það ætlum við að gera.”

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics