Hoppa yfir valmynd

ESA: Veiting ábyrgða á viðbótarlánum lánastofnana til fyrirtækja vegna COVID-19 samrýmist framkvæmd EES-samningsins

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, féllst í dag á að fyrirhuguð veiting ábyrgða á viðbótarlánum lánastofnana til fyrirtækja, í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru (COVID-19), samrýmist framkvæmd EES-samningsins. Um er að ræða fyrsta íslenska ríkisaðstoðarkefið í tengslum við faraldurinn sem kemur til kasta ESA.

Með ákvörðun ESA er fallist á að ábyrgðakerfið sé til þess fallið að tryggja fyrirtækjum aðgang að lánsfé, í samræmi við tímabundinn ramma um beitingu ríkisaðstoðarreglna EES í tengslum við faraldur kórónuveiru. Í rammanum er sérstaklega horft til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem verða fyrir ófyrirséðum lausafjárskorti og aðgerðir til að gefa þeim svigrúm til að ná sér eftir faraldurinn, sem hefur verið skilgreindur sem „alvarleg röskun“ á hagkerfinu í skilningi b-liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins.

Flestar efnahagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu hingað til hafa verið almenns eðlis; þær taka með sama hætti til allra fyrirtækja sem eru í sömu stöðu. Er þar helst að nefna frestun gjalddaga og niðurgreiðslu launakostnaðar. Almennar aðgerðir fela ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins. Ef á hinn bóginn tiltekinn hópur fyrirtækja er útilokaður frá ráðstöfun eða ráðstöfun beinist að tilteknum hópi eingöngu, er ráðstöfunin orðin sértæk og felur í sér ríkisaðstoð, sem samrýmast þarf EES-samningnum.

Jafnframt felur óskilyrtur stuðningur við einstaklinga ekki í sér ríkisaðstoð og það sama á við um fjárhagsstuðning við lögaðila sem ekki selja vöru eða þjónustu á markaði. Í þeim tilvikum þegar félag sinnir blandaðri starfsemi, eins og í tilviki sumra íþróttafélaga og menningarstofnana, þarf að gæta að ríkisaðstoðarreglum ef opinber stuðningur rennur að einhverju leyti til þess hluta starfseminnar sem er í samkeppnisrekstri.

Sjá nánar:

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics