Hoppa yfir valmynd

Heimsókn varaforseta Alþjóðabankans í Evrópu til Íslands

Varaforseti Alþjóðabankans í Evrópu, Jean-François Rischard, kemur í heimsókn til Íslands 4. mars n.k. og mun ásamt Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra undirrita samning á milli Íslands og Alþjóðabankans vegna endurreisnar- og uppbyggingarstarfs í Írak.

Samningurinn gerir ráð fyrir að íslensk stjórnvöld leggi til 1 milljón bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 70 milljónum íslenskra króna, í fjölþjóðlegan sjóð sem Alþjóðabankinn hefur með höndum og er ætlað að fjármagna verkefni sem snúa að enduruppbyggingu í Írak. Framlag Íslands í enduruppbyggingarsjóð Alþjóðabankans er hluti af 300 milljón króna framlagi ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var í apríl á síðasta ári.

Í heimsókn sinni mun varaforseti Alþjóðabankans ennfremur eiga samráðsfund með embættismönnum í utanríkisráðuneytinu vegna formennsku Íslands í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í Alþjóðabankanum. Þá mun varaforsetinn eiga fund með fulltrúum fyrirtækja og kynna sér starfsemi og möguleika Íslands á sviði jarðhita.

Dagskrá heimsóknarinnar lýkur með opnum fundi með frjálsum félagasamtökum þar sem varaforsetinn mun ræða áherslur og stuðning Alþjóðabankans við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og baráttuna gegn fátækt í heiminum.

Í tilefni af undirritun samnings vegna enduruppbyggingar í Írak verður boðað til blaðamannafundar þann 4. mars kl. 14:00 í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics