Hoppa yfir valmynd

Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda

Utanríkisráðherrar Norðurlanda
Utanríkisráðherrar Norðurlanda

Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda var haldinn í Reykjavík 2.-3. mars 2004.

Á dagskrá voru Evrópumál, þ.m.t. norrænt samráð um Evrópumál, stækkun Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðsins (EES), nýja stjórnarskrá ESB og svonefnt Lissabon-ferli um markmið ESB varðandi samkeppnishæfni. Þá var fjallað um öryggismál og ýmis alþjóðamál.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að viðhalda og styrkja samvinnu og samráð Norðurlanda, ekki einungis um Evrópumál, heldur einnig á sviði utanríkismála almennt. Ráðherra sagði væntanlega stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins sögulegan viðburð, ekki aðeins í viðskiptalegu tilliti. Stækkunin fæli í sér að söguleg og pólitísk skil á milli ríkja og þjóða í Evrópu væru afmáð.

Á fundinum var ennfremur fjallað um öryggismál og stöðu mála í Afganistan, Írak og fyrir botni Miðjarðarhafs.

Utanríkisráðherra fagnaði því að hlutaðeigandi aðilar legðu sig fram við að jafna þann ágreining sem upp kom á milli nokkurra evrópskra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar vegna innrásarinnar í Írak. Vilji væri beggja vegna Atlantshafsins til þess að efla Atlantshafstengslin á ný og væri það afar mikilvægt, ekki síst með tilliti til áframhaldandi þróunar sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu ríkja Evrópusambandsins (ESDP).

Utanríkisráðherra upplýsti starfsbræður sína um undirbúning þess að Ísland taki við stjórn flugvallarins í Kabul í Afghanistan á miðju þessu ári, en það er eitt umfangsmesta verkefni sem Íslenska friðargæslan hefur fengist við.

Norrænu ráðherrarnir voru sammála um að brýnt væri að tryggja öryggi borgaranna í Írak, en hætta væri á borgarastyrjöld í landinu. Mikilvægt væri að kosningar ættu sér stað sem fyrst eftir að Írakar taka við stjórn landsins í sumar. Þá væri æskilegt að Sameinuðu þjóðirnar gegndu lykilhlutverki við endurreisnarstarf í landinu.

Ástandið í Mið-Austurlöndum var rætt og ráðherrarnir voru sammála um að Vegvísirinn væri sá grunnur sem friðarviðræður yrðu að byggja á. Alþjóðasamfélagið þyrfti að knýja fastar á um að friðarferlið hefjist sem fyrst.

Ráðherrarnir fordæmdu byggingu Ísraels á aðskilnaðarmúrnum og vísuðu til ályktunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sl. haust.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, gerði að umtalsefni nauðsyn þess að styðja stjórnmálalegar umbætur og eflingu lýðræðis í ríkjum Miðausturlanda.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics