Hoppa yfir valmynd

Ísland kosið í kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna

Nr. 046

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu



Sameiginleg fréttatilkynning utanríkisráðuneytis og félagsmálráðuneytis

Ísland var hinn 29. apríl 2003 kosið í nefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um stöðu kvenna(Commission on the Status of Women). Kosningar fóru fram á fundi í Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) í New York.

Venja er að Norðurlöndin eigi sæti í nefndinni, en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur sæti í henni. Kjörtímabilið er fjögur ár og hefst í mars á næsta ári.

Kvennanefndin kemur saman einu sinni á ári, tvær vikur í senn. Síðasti fundur nefndarinnar var haldinn 3.–14. mars sl. Fulltrúar félagsmálaráðuneytis og fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York tóku þátt í fundinum sem áheyrnarfulltrúar, fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

Tvö meginefni voru á dagskrá fundarins, annars vegar útrýming alls ofbeldis gegn konum, þar með talið heimilisofbeldi og mansal, og hins vegar aðild og aðgangur kvenna að fjölmiðlum og upplýsinga- og samskiptatækni.

Í lokaniðurstöðum nefndarinnar um aðild og aðgang kvenna að fjölmiðlum og upplýsinga- og samskiptatækni fór nefndin fram á að niðurstöður hennar um þetta efni verði hafðar til hliðsjónar á leiðtogafundi um upplýsingasamfélagið (World Summit on the Information Society) sem haldinn verður í Genf í desember á þessu ári. Nefndin taldi mikilvægt að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna taki þar sérstaklega tillit til kynjasjónarmiða.

Ekki tókst að ná samkomulagi um lokaniðurstöður um útrýmingu alls ofbeldis gegn konum þrátt fyrir umfangsmiklar samningaviðræður og orðalag sem samþykkt var um þetta málefni í lokaskjölum kvennaráðstefnunnar í Peking árið 1995 og aukaallsherjarþingsins um málefni kvenna sem haldið var í New York í júní 2000. Mörg aðildarríki lýstu yfir þungum áhyggjum vegna þessarar afgreiðslu og afleiðinga sem hún hefði við úrlausn jafnréttismála á alþjóðavettvangi.

Ísland gerðist meðflytjandi að tveimur ályktunum á fundinum, annars vegar ályktun Evrópusambandsins um mannréttindi kvenna í Afganistan og hins vegar að ályktun Bretlands um samþættingu kynjasjónarmiða.

Á fundinum var samþykkt dagskrá næsta fundar nefndarinnar sem haldinn verður í mars árið 2004. Meginefni þess fundar verða tvö: Hlutverk karla og drengja í jafnréttismálum og þátttaka kvenna í friðarviðræðum, friðargæslu og friðaruppbyggingu.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 30. apríl 2003


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics