Hoppa yfir valmynd

Afhending trúnaðarbréfs

Tómas Ingi Olrich, sendiherra, afhenti hinn 9. nóvember Carlo Azeglio Ciampi, forseta Ítalíu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands á Ítalíu með aðsetur í París. Að afhendingu lokinni átti sendiherrann fund með forsetanum og ræddu þeir ýmis samskipti ríkjanna. Lýsti forsetinn yfir ánægju sinni með að Ísland hefur sett á stofn sendiráð í Róm.

Sendiherra átti í heimsókn sinni til Rómar einnig fundi með ýmsum embættismönnum í utanríkisráðuneytinu, þ. á m. skrifstofustjórum fyrir tvíhliða samskipti Evrópuríkja og samrunaþróun í Evrópu. Var m. a. rætt um þróun mála innan Evrópusambandsins, Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, og önnur mál, er varða gagnkvæma hagsmuni ríkjanna. Einnig átti sendiherra fund með skrifstofustjóra fyrir varnar- og öryggismál. Var m. a. rætt um málefni Atlantshafsbandalagsins, samskipti Bandaríkjanna og Evrópuríkja og baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi.

Þá átti sendiherra fund með aðstoðarskrifstofustjóra menningarmála í ítalska utanríkisráðuneytinu og var m. a. rætt um tvíhliða menningarsamning ríkjanna, sem gerður var fyrir nokkru, og möguleika ríkjanna til að efla samskipti sína á sviði lista, menningar og menntunar, en allmargir Íslendingar stunda nám á Ítalíu.

Sendiherra heimsótti einnig ítalska þingið og kynnt sér ítölsk stjórnmál, en kosningar eru framundan á Ítalíu á næsta ári.

Stjórnmála- og viðskiptasamskipti ríkjanna standa á gömlum merg. Fyrsti kjörræðismaður Ítalíu á Íslandi varð árið 1912 Christen Zimsen, kaupmaður. Markaðsathuganir Íslendinga á Ítalíu hófust með ferð Matthíasar Ólafssonar, alþingismanns, í ferð hans til Evrópulanda 1919-21, en fyrsti viðskiptasamningur ríkjanna var gerður 1935. Hálfdán Bjarnason, umboðsmaður SÍF í Genúa, varð fyrsti ræðismaður Íslands á Ítalíu og fékk viðurkenningu sem aðalræðismaður í Genúa árið 1946. Sendiráð Ítalíu í Osló annast sendiráðsstörf á Íslandi og er Pétur Björnsson, aðalræðismaður Ítalíu í Reykjavík. Pétur Benediktsson varð fyrsti sendiherra Íslands á Ítalíu árið 1947 með aðsetur í París. Sendiráð Íslands í Róm tók til starfa síðsumars 2005 og fékk Guðni Bragason viðurkenningu ítalska utanríkisráðuneytisins sem sendifulltrúi (Chargé d´Affairs a.i.) Íslands í Róm hinn 18. ágúst 2005.

Viðskipti ríkjanna eru blómleg og flytja Íslendingar inn vörur frá Ítalíu fyrir rúmlega 10 milljarða kr. árlega. Útflutningur Íslendinga til Ítalíu nemur tæplega 2,2 milljörðum kr. en ætla má, að ýmsar vörur, sem fluttar eru út til annarra Evrópusambandsríkja, eigi áfangastað á Ítalíu. Útflutningsvörur til Ítalíu eru aðallega sjávarafurðir og iðnaðarvörur, en Ítalía er nú orðin helsti útflutningsmarkaður fyrir íslenskt lambakjöt. Ítalir hafa mikinn áhuga á Íslandi sem ferðamannalandi og hefur fjöldi ferðamanna frá Ítalíu til Íslands aukist jafnt og þétt.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics