Hoppa yfir valmynd

Áhrif smáríkja

Smáríkjafundur
Smáríkjafundur

Möguleikar smáríkja til áhrifa í alþjóðastofnunum og í alþjóðakerfinu, var meginefni fyrirlestrar, sem Baldur Þórhallsson, dósent við Háskóla Íslands, flutti í gær, miðvikudag, á hádegisverðarfundi í New York á vegum stofnunarinnar "International Peace Academy", sem starfar innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.

Fundurinn, sem haldinn var að tilstilli fastanefndar Íslands hjá SÞ, fór fram í fundarsal fastanefndar Kanada, og var mjög fjölsóttur. Meðal gesta voru sendiherrar margra ríkja, þar á meðal flestra smærri aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.

Baldur fjallaði um það hvernig smáríki geta nýtt sér kosti lítillar stjórnsýslu, svo sem sveigjanleika, óformleg vinnubrög og stuttar boðleiðir, til að auka áhrif sín innan alþjóðastofnana. Einnig fjallaði hann um það hvernig viðhorf stjórnmálamanna til alþjóðamála og stöðu ríkja í alþjóðakerfinu getur skipt sköpum um möguleika ríkja til áhrifa í alþjóðastofnunm eins og SÞ og ESB.

Hann ræddi sérstaklega hvernig aukin geta íslensku stjórnsýslunnar og þá einkum aukin umsvif utanríkisþjónustunnar hafi gert Íslandi kleyft að auka áhrif sín innan alþjóðastofnana. Að mati hans hefur Ísland breyst úr því síðustu ár að vera óvirkur gerandi á alþjóðavettvangi yfir í það að vera ríki sem tekur virkan þátt í fjölda alþjóðastofnana og getur haft áhrif á ákvarðanir sem eru teknar innan þeirra.

Meðal annarra ræðumanna voru Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá SÞ, Wegger Strömmen, sendiherra, varafastafulltrúi Noregs, sem fjallaði um aðild og hlutverk smáríkja í öryggisráði SÞ, og Jagdish Koonjul, fastafulltrúi Máritíus, formaður sambands smárra eyríkja innan Sameinuðu þjóðanna.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics