Hoppa yfir valmynd

Samningaviðræðum Íslands og Færeyja lokið

Nr. 052

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Samningaviðræðum Íslands og Færeyja er nú lokið með áritun af hálfu aðalsamningamanna íslenskra og færeyskra stjórnvalda. Samningurinn er efnislega séð víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert, en ekki er gert ráð fyrir neinum stofnunum eins og t.d. í EES-samningnum. Gengið er út frá að stjórnvöld í hvoru landi fyrir sig sjái til þess að farið sé eftir ákvæðum samningsins.

Markmið samningsins er að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði Íslands og Færeyja. Samningurinn gerir ráð fyrir frelsi á sviði vöruviðskipta, þjónustuviðskipa og fjárfestinga sem og frjálsri för fólks milli landanna. Samkvæmt samningnum skulu Íslendingar og íslensk fyrirtæki njóta sömu réttinda í Færeyjum og Færeyingar og gagnkvæmt. Þá er með samningnum jafnframt stefnt að því að styrkja samvinnu landanna á ýmsum öðrum sviðum og treysta þannig enn frekar hin nánu tengsl milli þessara tveggja grannþjóða í Norður-Atlantshafi.

Færeyjar er mikilvægur og vaxandi markaður fyrir ýmsar íslenskar vörur og íslensk fyrirtæki. Þannig mun samningurinn opna fyrir frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur milli landanna og ryðja þannig úr vegi hindrunum gagnvart viðskiptum á þessu sviði.

Aðalsamningamaður Íslands var Grétar Már Sigurðsson, sendiherra, og aðalsamningamaður Færeyja var Herluf Sigvaldsson, frá skrifstofu lögmanns Færeyja. Stefnt er að því að samningurinn verði undirritaður í Færeyjum í sumar.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 23. maí 2003.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics