Hoppa yfir valmynd

Fundur utanríkisráðherra Íslands og Spánar

Nr. 002

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með utanríkisráðherra Spánar, Josep Piqué, en Spánn fer með formennsku í Evrópusambandinu fyrri hluta yfirstandandi árs á sama tíma og Íslands gegnir formennsku í EFTA.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. stöðu EES-samningsins og væntanlega stækkun ESB og EES-svæðisins. Lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að tryggja samræmi EES-samningsins og sáttmála ESB til að viðhalda upphaflegum markmiðum EES-samningsins. Jafnframt lagði utanríkisráðherra áherslu á að stækkun ESB og stækkun EES héldust í hendur. Ítrekaði utanríkisráðherra mikilvægi þess að stækkun ESB leiddi ekki til þess að viðskiptakjör EFTA ríkjanna versnuðu.

Utanríkisráðherra Spánar skýrði fyrirætlanir sínar í formennskutíð Spánar og utanríkisráðherra Íslands fjallaði um áherslur sínar í formennsku EFTA. Utanríkisráðherra Spánar tók undir með utanríkisráðherra Íslands að mikilvægt væri að nýta það tækifæri sem nú skapaðist til að vinna að tæknilegri uppfærslu EES-samningsins og að sú vinna væri þegar hafin innan framkvæmdastjórnar ESB.

Utanríkisráðherra Íslands ræddi sérstaklega um markaðsstöðu sjávarafurða á stækkuðum innri markaði EES. Utanríkisráðherra Spánar sýndi skilning á stöðu Íslands og urðu ráðherrarnir sammála um að ræða það frekar á fundi EES ráðsins 12. mars n.k.

Ráðherrarnir skiptust á skoðunum um stöðuna í alþjóðamálum. Ræddu þeir stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs og í Afghanistan auk þess sem þeir skiptust á skoðunum um málefni NATO og samskiptin við Rússland. Sérstaklega ræddu þeir málefni Sameinuðu þjóðanna og baráttuna gegn hryðjuverkum sem er efst á baugi í formennskutíð Spánar.

Ráðherrarnir undirrituðu samning milli lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Spánar til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot á skattlagningu á tekjur og eignir.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 22. janúar 2002.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics