Hoppa yfir valmynd

Nr. 002, 12. janúar 1998: Formennska Alþjóðaráðs UNESCO um siðferði í vísindum.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu og
menntamálaráðuneytinu
_____________

Nr. 002

Federico Mayor, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, Menningar- og vísindamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, fól í dag frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, að taka við formennsku Alþjóðaráðs um siðferði í vísindum og tækni.

Á fundi, sem haldinn var í höfuðstöðvum UNESCO í París síðdegis í dag, varð frú Vigdís Finnbogadóttir jafnframt við þeirri beiðni Federico Mayors að vera honum til ráðuneytis við að velja fólk til setu í ráðinu og sníða því skipulagsramma. Áður hafði aðalráðstefna UNESCO lagt það til á síðasta fundi sínum í nóvember sl. að slíku Alþjóðaráði yrði komið á fót.

Aðalráðstefnan fór þess á leit við Federico Mayor að hann setti á stofn Alþjóðaráð ,,til að stuðla að fjölþjóðlegri og þverfaglegri umræðu um ýmsa siðferðilega þætti, sem upp kunna að koma í kjölfar nýjunga í vísindum og tækni og hafa í för með sér hugsanlega áhættu fyrir mannlegt samfélag".

Federico Mayor fór þess á leit við frú Vigdísi Finnbogadóttur, að hún yrði honum til ráðuneytis við stofnun Alþjóðaráðsins, ,,með því að mæla með og velja u.þ.b. 20 fulltrúa í ráðið, einstaklinga frá öllum heimshlutum, sem hafi getið sér orð fyrir vel unnin störf á sviði vísinda, lögfræði, heimspeki, menningar og stjórnmála".

Federico Mayor lagði til að Alþjóðaráðið einbeitti sér til að byrja með að þremur mikilvægum málaflokkum: þeim sem varða orku, nýtingu ferskvatnsforða og siðferði upplýsingasamfélagsins.

Federico Mayor tilkynnti ennfremur að UNESCO muni veita frú Vigdísi Finnbogadóttur alla þá aðstoð sem hún þarfnast í störfum sínum fyrir ráðið.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 12. janúar 1998

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics