Hoppa yfir valmynd

Nr. 039, 05. maí 1998:Halldór Ásgrímsson situr utanríkisráðherrafund Evrópuráðsins.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 39


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sat í dag utanríkisráðherrafund Evrópuráðsins, í Strassborg í Frakklandi. Á dagskrá fundarins var m.a. stjórnmála- ástandið í Suð-Austur-Evrópu, einkum í Kósóvó. Einnig var fjallað um aðildarumsókn Sambandslýðveldisins Júgóslavíu (Serbíu-Svartfjallalands) að Evrópuráðinu.

Í máli sínu lagði utanríkisráðherra áherslu á að hvert það ríki, sem fengi aðild að Evrópuráðinu, yrði að virða grundvallarreglur ráðsins um mannréttindi, þ.m.t. rétt minnihlutahópa, lýðræði og reglur réttarríkis. Stefna stjórnvalda í Belgrad gagnvart íbúum Kósóvó, sem flestir eru af albönskum uppruna, gæfi ekki til kynna að þau héldu slíkar reglur í heiðri og því væri ótímabært að fallast á aðild Sambandslýðveldisins Júgóslavíu að Evrópuráðinu.

Á fundinum var einnig fjallað um framkvæmd Evrópuráðsins á yfirlýsingu og aðgerðaáætlun leiðtogafundar aðildarríkja ráðsins, sem haldinn var í október á síðastliðnu ári. Í því sambandi lagði utanríkisráðherra áherslu á að efla þyrfti eftirlitshlutverk Evrópuráðsins til að tryggja að þegnar aðildarríkjanna búi við stjórnarhætti, sem samræmast grundvallarmarkmiðum ráðsins.

Á fundinum tók Ísland sæti í stjórnarnefnd Evrópuráðsins. Í nóvember á þessu ári mun Ísland taka við varaformennsku í ráðinu en í maí á næsta ári tekur Ísland við formennsku í Evrópuráðinu á fimmtíu ára afmæli þess.

Yfirlýsing utanríkisráðherrafundar Evrópuráðsins er hjálögð.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 5. maí 1998.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics