Hoppa yfir valmynd

Sameiginleg yfirlýsing norrænna utanríkisráðherra um ástandið í Simbabve:

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna taka undir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem pólitískt ofbeldi í Simbabve er fordæmt. Skorað er á stjórn Simbabve að stöðva ofbeldisölduna sem riðið hefur yfir, að láta þegar í stað af hótunum í garð stjórnarandstæðinga, leyfa fundi og samkomur og láta lausa stjórnmálaleiðtoga sem hafa verið teknir höndum.

Utanríkisráðherrarnir hafa miklar áhyggjur af þróun mála í Simbabve, þar sem ofbeldisverk og árásir stjórnvalda hafa aukið gríðarlega á vanda óbreyttra borgara og grafið undan trúverðugleika kosninganna sem framundan eru en annar forsetaframbjóðendanna hefur neyðst til að draga sig í hlé. Segja ráðherrarnir ljóst að kosningaferlið brjóti í bága við allar reglur sem gilda um frjálsar og réttlátar kosningar

Norðurlöndin hafa átt mikil og vaxandi samskipti við samtök ríkja í sunnanverðri Afríku, SADC, þar sem lögð hefur verið áhersla á frið, mannréttindi, lýðræði og uppbyggingu réttarríkja. Í ljósi þessa skora utanríkisráðherrar Norðurlandanna á ríkin í sunnanverðri Afríku að grípa þegar í stað til aðgerða til að finna lýðræðislega lausn á ástandinu. Fagna ráðherrarnir tilraunum Sambíu, sem fer fyrir ríkjahópnum, til að finna lausn á ástandinu. Þá skora ráðherrarnir á Afríkubandalagið að koma beint að lausn á ástandinu í Simbabve.

Norrænu ráðherrarnir hafa miklar áhyggjur af þróun mála sem hefur m.a. orðið til þess að Morgan Tsvangirari, leiðtogi stjórnarandstöðflokksins MDC, neyddist til að leita skjóls í sendiráði Hollands í höfuðborginni Harare. Krefjast utanríkisráðherrar Norðurlandanna þess að öryggi hans verði tryggt.

Binda verður endi á ofbeldi og leggja verður drög að lögmætri, lýðræðislegri og umbótasinnaðri stjórn í Simbabve. Eru Norðurlöndin reiðubúin að veita slíkum stjórnarumbótum öflugan stuðning og munu leggja á það höfuðáherslu í samskiptum sínum við ríkin í sunnanverðri Afríku.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics