Hoppa yfir valmynd

Umhverfisvænar lausnir og fjárfestingar efstar á baugi á ráðherrafundi OECD

OECD ráðherrar

Leiðir til að efla fjárfestingu til að tryggja sjálfbæran hagvöxt, auka framleiðni og skapa atvinnu voru efstar á baugi á ráðherrafundi Efnahags-  og framfarastofnunarinnar, OECD, sem lauk í París fyrr í dag. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra  fór fyrir íslensku sendinefndinni á fundinum.

Á fundinum var meðal annars rætt um nauðsyn þess að efla fjárfestingar í loftslagsvænni tækni og hvernig ríkisstjórnir geti með samþættri stefnumótun stuðlað að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Gunnar Bragi sagði m.a. frá möguleikum jarðhita og hvernig Íslandi hafi tekist með markvissri stefnu að umbreyta orkukerfinu til sjálfbærni.

Jafnframt sótti ráðherrann fund um stöðu samningaviðræðna um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum, TISA. Þar er um að ræða viðræður 51 aðildarríkis Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Ráðherra hvatti önnur ríki til þess að viðhafa gagnsæ vinnubrögð í samningaviðræðunum. Þá lýsti hann þeirri skoðun sinni að þróunarríki ættu að njóta ávinnings TISA-samnings.

Jafnframt átti utanríkisráðherra fund með Laurence Tubiana, loftslagssendiherra Frakklands, en hún ber nú höfuðábyrgð á undirbúningi ríkjaráðstefnu aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP21, sem fer fram í París í desember. Á fundinum var rætt um hvernig nýting jarðhita víða um heim geti leikið mikilvægt hlutverk við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig mögulegt sé að nýta reynslu Íslands á þessu sviði

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics