Hoppa yfir valmynd

Afhending trúnaðarbréfs

Hannes Heimisson, sendiherra, afhenti í dag, 24. nóvember, forseta Finnlands, Tarja Halonen, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Finnlandi.

Að afhendingu lokinni átti sendiherra fund með forsetanum. Auk þess átti hann fundi með Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, og embættismönnum utanríkisráðuneytisins. 

 

Forseti Finnlands lagði áherslu á náin og vinsamleg samskipti þessara norrænu bræðraþjóða og lýsti sérstakri ánægju með aukin umsvif íslenskra fyrirtækja í finnsku efnahags- og viðskiptalífi er vakið hefðu athygli í Finnlandi og kæmu báðum ríkjum til góða.

 

Á fundinum með utanríkisráðherranum var meðal annars fjallað um norðlægu víddina, nýja framkvæmdaáætlun um málefni norðurslóða, en bæði Ísland og Finnland standa að áætluninni sem taka mun gildi árið 2007 og annað alþjóðlegt samstarf ríkjanna. Ísland fer sem kunnugt er með formennsku í Eystrasaltsráðinu um þessar mundir og Finnland tók fyrr í þessum mánuði við formennsku í Barentsráðinu. Á næsta ári tekur Finnland við formennsku í Evrópusambandinu.

 

Viðskipta-stjórnmála og menningarsamskipti ríkjanna standa á gömlum merg. Jakob Möller varð fyrsti sendiherra Íslands í Finnlandi árið 1947, með aðsetur í Stokkhólmi. Sendiráð Íslands í Helsinki tók til starfa árið 1997 en Finnar höfðu þegar opnað sendiráð í Reykjavík árið 1982. Þess má geta að Hannes Heimisson, nýr sendiherra Íslands í Helsinki, var jafnframt fyrsti útsendi starfsmaður utanríkisþjónustunnar í Helsinki frá 1997 til 1999 sem sendifulltrúi til bráðabirgða, (Chargé d´Affaires a.i.).

 

Á skömmum tíma hafa íslensk fyrirtæki aukið mjög umsvif sín í Finnlandi. KB banki, Icelandair og Actavis reka umfangsmikla starfsemi í Helsinki, auk þess sem Fram Food í Reykjanesbæ keypti nýverið Boy Food OY, eitt þekktasta vörumerkið í finnskum síldarafurðum. Finnland er einnig mikilvægur markaður fyrir íslenskar lýsisafurðir og hefur verið um árabil.  Ferðaþjónusta er blómleg. Ísland er vinsæll áfangastaður finnskra ferðamanna og hefur fjöldi þeirra aukist jafnt og þétt. Icelandair heldur uppi beinu áætlunarflugi á milli Íslands og Finnlands drjúgan hluta ársins. Finnland er einnig mikilvæg miðstöð ferðamanna á leið til Íslands og Norður Ameríku frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi. Íslenskar bókmenntir hafa löngum notið hylli í Finnlandi og á undanförnum árum hafa að jafnaði komið út 2 til 3 ritverk eftir íslenska höfunda í finnskri þýðingu.  

 

Mikil aukning hefur einnig orðið á fjárfestingum íslenskra aðila í finnskum félögum, meðal annars í Finnair og í fyrirtækjum á sviði fjarskipta og hátækni.

 



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics