Hoppa yfir valmynd

Öryggismál í Evrópu rædd á fundi evrópskra utanríkisráðherra í Slóvakíu

Fundur NB8 og Visegrad ríkja

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í gær og í dag þátt í utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Visagrad-ríkjanna, Póllands, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands sem haldinn var í Slóvakíu. Þróunin í Úkraínu og samstarf við önnur ríki í austurhluta Evrópu, orkuöryggi álfunnar og baráttan gegn hryðjuverkum voru aðalumfjöllunarefni fundarins.

Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að öll ákvæði Minsk samkomulagsins svokallaða um vopnahlé í Úkraínu komi til framkvæmda og að sjálfstæði og fullveldi Úkraínu verði tryggt til framtíðar. Rætt var um hvernig Evrópuríki og alþjóðastofnanir geti enn betur samhæft aðstoð sína til stuðnings Minsk samkomulaginu, að brýnt sé að styðja lýðræðislegar og efnahagslegar umbætur í Úkraínu og tryggja orkuöryggi landsins. Þá var rætt um framkvæmd eftirlitsverkefnis Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Úkraínu en í gær samþykkti fastaráð ÖSE að framlengja umboð eftirlitssveita stofnunarinnar til mars 2016. 

Mikil eining ríkir um mikilvægi þess að bregðast af festu við uppgangi hryðjuverkasamtaka á borð við ISIS. Ráðherrarnir ræddu alþjóðlegar aðgerðir til að bregðast við aukinni hryðjuverkaógn, svo sem framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ um ferðir vígamanna sem samþykkt var síðastlið haust, aðgerðir til að hamla fjármögnun hryðjuverkasamtaka og hvernig bregðast skuli við áróðri þeirra. 

Í gær áttu Gunnar Bragi og Miroslav Lajcak, utanríkisráðherra Slóvakíu, fund í Bratislava þar sem tengsl Íslands og Slóvakíu voru rædd. Ráðherrarnir fjölluðu meðal annars um jarðvarmasamsamstarf en umtalsverðan jarðhita er að finna víða í Slóvakíu. Voru þeir sammála um að leita leiða til að efla enn frekar samstarfs íslenskra og slóvakískra aðila á því sviði. Einnig var rætt um stöðuna í Úkraínu og um evrópsk öryggismál. 

Gunnar Bragi heimsótti einnig hitaveitu í borginni Galanta skammt austan við Bratislava sem íslenskir aðilar áttu þátt í að koma á fót. Loks heimsótti hann Jessenius læknaskólann í borginni Martin í austurhluta Slóvakíu þar sem rúmlega 70 Íslendingar stunda læknanám. Gunnar Bragi hitti þar hóp íslenskra læknanema og ræddi við forseta læknadeildar skólans.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics