Hoppa yfir valmynd

Áritun samnings um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins

Nr. 066

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Í dag árituðu fulltrúar EES/EFTA-ríkjanna samning um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins, ásamt fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fulltrúum frá nýju aðildarríkjunum tíu. Fyrir hönd Íslands áritaði Kjartan Jóhannsson, aðalsamningamaður Íslands, samninginn.

Samningurinn er talinn ásættanlegur fyrir Ísland og skiptir þar miklu að frosin síldarsamflök verða endurflokkuð í tollskrá ESB þannig að þau hljóta sömu tollameðferð og frosin síldarflök. Með nýjum þróunarsjóði EFTA sem stofnaður er í tengslum við stækkunina er lögð áhersla á að hægt verði að styrkja verkefni á sviðum þar sem EES/EFTA-ríkin hafa reynslu og þekkingu, svo sem á sviði sjávarútvegs, hagnýtingu jarðhita og orkuvinnslu.

Vonast er til að undirritun geti átt sér stað í septembermánuði en undirbúningur til fullgildingar stækkunarsamnings ESB er þegar hafinn í tilvonandi og núverandi aðildarríkjum Evrópusambandsins. Ætlunin er að stækkunarsamningur EES taki gildi á sama tíma og aðildarsamningur ríkjanna við ESB, þann 1. maí 2004. Við aðild nýrra ríkja að EES falla úr gildi þeir fríverslunarsamningar sem EFTA hafði áður við átta ríkjanna.

Áætlað er að leggja fram frumvarp til laga til breytinga á EES-samningnum, vegna stækkunar, á 130. löggjafarþingi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 3. júlí 2003


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics