Hoppa yfir valmynd

Nr. 106, 25. nóvember 1998: Sameiginleg stefna Norðurlandanna varðandi breytingar á öryggisráði S.þ.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 106

Norðurlöndin kynntu sameiginlega stefnu sína varðandi breytingar á öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í umræðum um þau mál á allsherjarþingi samtakanna sl. föstudag. Fulltrúi Finnlands flutti ræðuna fyrir hönd Norðurlandanna fimm.

Í ræðunni kemur fram, að Norðurlöndin eru fylgjandi stækkun á öryggisráðinu, bæði hvað snertir föst sæti og kjörin sæti, og endurbótum á starfsemi ráðsins, til að styrkja það í samræmi við stofnskrá Sameinuðu þjóðanna í að viðhalda friði og öryggi í heiminum.

Tilgangur endurbótanna er, að öryggisráðið gefi betri mynd af aðildarríkjum samtakanna og lögmæti þess verði styrkt, ennfremur að starf þess verði opnara og ábyrgara. Stækkun ráðsins þurfi einnig að taka mið af þörfinni á aukinni skilvirni og gagnsemi.

Lýst var yfir stuðningi við það, að Þýskaland og Japan fái föst sæti í ráðinu og að föst sæti falli einnig í hlut Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku. Í ljósi þess, að nauðsyn ber til að tryggja virka ákvarðanatöku í ráðinu, telja Norðurlöndin varhugavert, að neitunarvaldi falli í hlut fleiri ríkja en þeirra fimm, sem hafa það nú þegar, en telja jafnframt, að takmarkanir á umfangi og notkun neitunarvaldsins, skuli verða reglulega til umfjöllunar.

Fagnað er þeim árangri, sem náðst hefur í vinnuhópi um breytingar á öryggisráðinu og í ráðinu sjálfu í því að gera starf ráðsins gagnsærra og bæta vinnuaðferðir þess. Hvatt er til þess, að slíkt endurmat fari fram reglulega, ennfremur hvað varðar að styrkja sambandið á milli ráðsins og allsherjarþingsins.

Hvatt var til þess, að vinnuhópurinn um breytingar á öryggisráðinu kæmi sér saman um ákveðnar tillögur um breytingar, sem allsherjarþingið fjallaði síðan um.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 25. nóvember 1998.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics