Hoppa yfir valmynd

Nr. 90, 8. október 1998:Í gær var í Reykjavík undirritað samkomulag milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu




Í gær var í Reykjavík undirritað samkomulag milli Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 1999. Samkomulagið er óbreytt frá því sem þessir aðilar komu sér saman um í október 1997 um veiðar á þessu ári.

Samkvæmt samkomulaginu verður heildarafli aðila 1.289.600 lestir og skiptist hann þannig að í hlut Íslands koma 202.000 lestir, í hlut Færeyja 71.000 lestir, í hlut Noregs 741.000 lestir, í hlut Rússlands 166.000 lestir og í hlut Evrópusambandsins 109.000 lestir.

Aðilar hafa jafnframt komið sér saman um í hvaða mæli þeir veita hver öðrum aðgang að lögsögu sinni til síldveiða á árinu 1999. Íslensk skip mega með sama hætti og á þessu ári veiða allan sinn hlut í lögsögu Færeyja og færeysk skip allan sinn hlut í lögsögu Íslands. Eins og í ár mega íslensk skip veiða sinn hlut í Jan Mayen lögsögunni og norsk skip sem svarar tveimur þriðju hlutum af kvóta Íslands í íslenskri lögsögu auk 9.000 lesta. Íslensk skip mega veiða 9.000 lestir í lögsögu Noregs.

Ákveðið var að halda áfram vinnu að þróun framtíðarnýtingarstefnu fyrir síldina til að tryggja skynsamlega nýtingu stofnsins. Vinnuhópur vinnur að tillögugerð að höfðu nánu samráði við sérfræðinga Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Utanríkisráðuneytið
Sjávarútvegsráðuneytið
8. október 1998

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics