Hoppa yfir valmynd

Vegna umræðu um samning ríkisins við Microsoft

Vegna umræðu um samning ríkisins við Microsoft tekur fjármála- og efnahagsráðuneytið fram:

Íslenska ríkið undirritaði í júní 2018 heildstæðan samning við Microsoft, en áður höfðu stofnanir og ráðuneyti gert sjálfstæða samninga. Samningurinn tryggir Íslandi meiri afslátt en býðst í mörgum nágrannaríkjum og er liður í stærra átaki ríkisins sem felst í að auka og bæta opinbera þjónustu. Samningurinn felur í sér aðgengi ríkisstofnana að nýjustu útgáfu Office 365 hugbúnaðarpakkans, sem inniheldur meðal annars Word, Excel, hópvinnukerfi og póstkerfi.

Fram kom þegar samningurinn var undirritaður að með honum sparist árlega 200 milljónir króna, en sá sparnaður næst fram með lækkun leyfakostnaðar. Ráðuneytinu hafa borist ábendingar vegna hækkunar á leyfakostnaði hjá einstökum stofnunum. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður og er ráðuneytið að skoða hvert tilfelli. Taka skal fram að almenn ánægja er með þá lausn sem keypt var og hefur samstarf við stofnanir gengið vel. Í þeirri vinnu sem unnin var í aðdraganda samningsins og eftir undirritun hans hefur farið fram ítarlegt mat á fjölþættum ávinningi ríkisins af samningnum. Sumarið 2018 var unnin viðskiptagreining í samstarfi við Capacent vegna innleiðingarinnar þar sem horft var til fjögurra þátta sem væntur ávinningur stofnana fælist í:

  1. Skilvirkari stjórnsýsla: Starfsmenn ríkisins vinna í samtengdu umhverfi og geta þannig aukið skilvirkni í stöfum sínum, forðast tvíverknað og tekið betri ákvarðanir með bættri sýn á gögn.
  2. Nýjar lausnir innan samningsins: Með því að nýta nýjar lausnir sem rúmast innan samningsins má leggja niður eldri kerfi á fjölmörgum stöðum í ríkiskerfinu.
  3. Aukið öryggi: Með samræmdari lausn fyrir ríkið eykst öryggi gagna, bætt yfirsýn fæst yfir öryggisatvik og hægt að bregðast við atvikum á heildstæðan hátt.
  4. Öflugri rekstur: Umsýsla samningsins verður miðlæg og nýtt umhverfi einfaldar rekstur sem leiðir til minni kostnaðar innan allra stofnana ríkisins.

Í hverjum af ofangreindum þáttum var lagt mat á hve mikinn árlegan ávinning ríkið fengi fram miðað við að vel takist til við innleiðingu á samningnum. Eftirfarandi eru niðurstöður matsins:

  • Bein hagræðing: 800 m.kr.
  • Tímasparnaður: 2.700 m.kr (samsvarar 260 ársverkum)
  • Afleidd áhrif: 2.000 m.kr.
  • Árlegur ávinningur næmi því 5.500 m.kr  sem koma mun fram að fullu á árinu 2023

Opni hugbúnaðurinn X-Road í gagnið á næstu mánuðum

Ríkið leggur áherslu á nýta opinn hugbúnað í starfsemi sinni, þar sem það er talið best henta hverju sinni. Í vinnu við aðdraganda samningsins við Microsoft kom í ljós að Windows hugbúnaður var notaður í um 93% einmenningstölva hjá ríkinu og því væri verulegar tæknilegar hindranir fólgnar í að skipta út því umhverfi. Þá var litið til þess að kostnaður við innleiðingu og aðlögun kerfa sem tengjast þessu umhverfi væri verulegur. Stofnanir sem gert höfðu tilraun til að nýta opinn skrifstofuhugbúnað höfðu fallið frá því þar sem kostnaður reyndist of mikill.

Í nóvember sl. undirritaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, samning við NIIS stofnunina  (Nordic Institute for Interoperability Solutions) um samstarf við Eistland og Finnland um að hefja notkun gagnabrautarinnar Straumsins (X-Road). X-Road er opinn hugbúnaður og hefur verið nýttur í 15 ár af Eistum og Finnum, sem skipað hafa sér í fremstu röð þjóða þegar kemur að veitingu stafrænnar, opinberrar þjónustu. X-Road verður hryggjarstykkið í gagnaflutningi hjá hinu opinbera þegar það kemst í gagnið á næstu mánuðum.

Um samninginn við Microsoft

Samningur ríkisins við Microsoft er í tveimur hlutum, annars vegar fyrir almennar stofnanir og hins vegar fyrir menntastofnanir og hefur slíkum samningum með þessu fækkað úr rúmlega hundrað í tvo.

Samningurinn var boðinn út í örútboði í gegnum rammasamning og var það gert í tvennu lagi, annars vegar fyrir almennar stofnanir og hins vegar menntastofnanir. Hagstæðasta tilboðið í þann hluta sem snýr að almennum stofnunum barst frá Advania en vegna menntastofnana frá Crayon.

Straumurinn - bætt stafræn þjónusta hins opinbera from Fjármála- og efnahagsráðuneytið on Vimeo.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics