Hoppa yfir valmynd

Málefni Íraks og íraskra borgara

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 93/2007

Utanríkisráðherra ákvað í júní síðastliðnum að ekki yrði haldið áfram að manna stöðu upplýsinga- og fjölmiðlafulltrúa í Bagdad af hálfu íslensku friðargæslunnar. Kemur ákvörðunin til framkvæmda 1. október. Ákvörðunin var tekin í kjölfar vettvangsúttektar íslensku friðargæslunnar í maí sl. en niðurstaða hennar var sú að ekki væri ráðlegt að hafa aðeins einn starfsmann í Bagdad heldur væri nauðsynlegt að fjölga fulltrúum eða draga sig út úr verkefninu.

Verkefnið, sem NATO stjórnar, miðar að því að mennta æðri stjórnendur íraska hersins og byggja upp stjórnendaskóla hans. Var staðan sú eina innan íslensku friðargæslunnar sem ekki telst til þróunarsamvinnu samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum.

Utanríkisráðuneytið mun eftir sem áður taka þátt í mannúðar- og uppbyggingarstarfi í Írak. Í kjölfar heimsóknar utanríkisráðherra til Jórdaníu í júlí og fundar þar með fulltrúum Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) og Rauða krossins um málefni íraskra flóttamanna, hefur ráðherra ákveðið að styrkja verkefni á þeirra vegum sem lúta að því að bæta hag íraskra flóttamanna og óbreyttra borgara í Írak.

Ákveðið hefur verið að leggja 10 milljónir til sameiginlegs átaks UNHCR og UNICEF til stuðnings börnum sem eru meðal íraskra flóttamanna í Sýrlandi, Jórdaníu, Egyptalandi og Líbanon.UNHCR og UNICEF vara við því að kynslóð íraskra barna vaxi úr grasi ómenntuð og afskipt. Talið er að hálf milljón íraskra flóttabarna hafi ekki aðgang að skóla og miðar verkefnið annars vegar að því að bæta úr því og hins vegar sérstökum stuðningi við fjölskyldur sem sætt hafa miklu harðræði.

Þá hefur Alþjóða Rauða krossinum verið veitt 7 milljóna króna viðbótarframlag vegna síversnandi aðstæðna óbreyttra borgara í Írak. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum búa óbreyttir borgarar við linnulaust ofbeldi og óöryggi. Mannfall eykst, fleiri eru á flótta, lífsviðurværi skortir og aðgangur að grunnþjónustu er mjög takmarkaður. Alþjóðaráð Rauða krossins er í nánu samstarfi við íraska Rauða hálfmánann og mun viðbótarbeiðnin einkum renna til aðstoðar við aldraða, fatlaða og munaðarlaus börn.

Sameinuðu þjóðirnar telja að ríflega fjórar milljónir Íraka hafi flúið heimili sín vegna átaka í landinu undanfarin ár, u.þ.b. tvær milljónir eru á vergangi innan Írak og tvær milljónir hafa farið úr landi.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics