Hoppa yfir valmynd

Íslenskir fjárfestar og sprotafyrirtæki fjölmenna á TechBBQ í Kaupmannahöfn

Íslandsstofa, sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og Icelandic Startups stóðu fyrir þátttöku sendinefndar um 40 Íslendinga á TechBBQ, einni stærstu sprota- og fjárfestaráðstefnu í Norður-Evrópu, sem haldin er í Kaupmannahöfn dagana 18. og 19. september. Á meðal þátttakenda voru fimmtán efnileg íslensk sprotafyrirtæki og fulltrúar fjögurra íslenskra fjárfestingasjóða.

TechBBQ ráðstefnan er vettvangur fyrir frumkvöðla til þess að setja sig í samband við alþjóðlega fjárfesta, aðra fjársterka aðila og fjölmiðla. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2015, í fyrra voru um 6,600 gestir á ráðstefnunni og fer hún stækkandi með hverju árinu. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að tengja saman sprotafyrirtæki og fjárfesta með það að leiðarljósi að aðstoða næstu kynslóð af efnilegum sprotafyrirtækjum við að komast á laggirnar og vaxa á heimsmælikvarða.

Samhliða ráðstefnunni bauð Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, til móttöku þann 18. september þar sem sprotafyrirtækjunum gafst tækifæri til tengslamyndunar við erlenda fjárfesta. Davíð Helgason, frumkvöðull og stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Technologies, ávarpaði gesti og gaf sprotafyrirtækjunum góð ráð. Davíð er einn áhrifamesti maðurinn í þessum geira í Danmörku og meðal helstu áhugamála hans er að fjárfesta í sprotafyrirtækjum og veita þeim ráðgjöf.

Norræna sprotasamfélagið hefur vaxið mikið undanfarin ár og er talið vera á heimsmælikvarða. Samstaða Norðurlandanna hefur átt stóran þátt í þessum vexti en samstarf milli Íslands og hinna Norðurlandanna hefur aukist til muna á síðustu árum. Ráðstefna sem þessi er stökkpallur fyrir íslensk fyrirtæki sem ætla sér á alþjóðamarkað, en ekki síður góð landkynning á hinni frjóu frumkvöðlastarfsemi sem hér er að finna.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics