Hoppa yfir valmynd

Nýr loftferðasamningur við Grænland

Kristján Andri Stefánsson sendiherra, Niels Remmer formaður dönsku samninganefndarinnar og Lene Riis fulltrúi grænlensku landsstjórnarinnar.
Kristján Andri Stefánsson sendiherra, Niels Remmer formaður dönsku samninganefndarinnar og Lene Riis fulltrúi grænlensku landsstjórnarinnar.

Gerður hefur verið loftferðasamningur milli Íslands og Grænlands er heimilar flugsamgöngur milli tíu áfangastaða á Íslandi og Grænlandi. Samningurinn tekur til áætlunar- og fraktflugs milli Ilulissat, Kulusuk, Neerleriat Inaat, Nuuk, Narsarsuaq og Sisimiut annars vegar og Reykjavíkur, Keflavíkur, Akureyrar og Egilsstaða hins vegar. Samningurinn gerir ennfremur ráð fyrir að flugmálayfirvöld á hvorum stað um sig geti heimilað áætlunarflug til og frá fleiri áfangastöðum á Íslandi og Grænlandi, til og frá þriðja ríki, leiguflug, innanlandsflug o.fl.

 Flugsamgöngur milli Íslands og Grænlands eru töluverðar og hafa farið stöðugt vaxandi á síðustu árum. Flugfélag Íslands flýgur nú áætlunarflug frá Reykjavík til fimm áfangastaða á Grænlandi, þar af fjóra allt árið, og Air Greenland heldur uppi áætlun milli Nuuk og Keflavíkur, því sem næst allt árið. Leiguflug er einnig umtalsvert.

 Af hálfu stjórnvalda hefur áhersla verið lögð á að aukið umfang flugsamgangna milli Íslands og Grænlands geri kröfu til að flugrekendum verði skapað aukið öryggi í rekstri og fjárfestingum í þjónustu á þessum leiðum. Viðleitni til að taka upp viðræður um gerð nýs samnings hefur því staðið yfir lengi en ekki borið árangur fyrr en utanríkisráðherra leitaði eftir því við formann landsstjórnar Grænlands í ársbyrjun að þeir tækju höndum saman um að hrinda þeim af stað. Samningaumleitanir sem fylgt hafa í kjölfarið hefur nú lokið með gerð nýs samnings innan við ári eftir að þær hófust.

 Með þessum samningi hefur skapast farvegur fyrir bættar flugsamgöngur milli þessara nágrannaþjóða til að þróast í takt við tæknilegar framfarir og breytilegar markaðsaðstæður á hverjum tíma. Núverandi fyrirkomulag byggðist upphaflega á samningi sem gerður var 1950 milli Íslands og Danmerkur og hefur til skamms tíma ekki endurspeglað þá þróun sem síðar hefur orðið fyrr en nú.

Mynd: Kristján Andri Stefánsson sendiherra, Niels Remmer formaður dönsku samninganefndarinnar og Lene Riis fulltrúi grænlensku landsstjórnarinnar.

 Í utanríkisráðuneytinu, 29. desember 2011.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics