Hoppa yfir valmynd

Erindi utanríkisráðherra á hádegisverðarfundi Sagnfræðingafélags Íslands

Nr. 078

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra flutti erindi á hádegisverðarfundi Sagnfræðingafélags Íslands í Norræna húsinu í hádeginu í dag. Erindi utanríkisráðherra fjallaði einkum um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og þær breytingar sem orðið hafa í alþjóðasamfélaginu á undanförnum árum.
Utanríkisráðherra ræddi m.a. um breytta stöðu Sameinuðu þjóðanna og sagði:

"Vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar ná til nánast allra ríkja heims og þau starfa þar á jafnréttisgrundvelli, þá eru samtökin trúverðugasti vettvangurinn til beitingar alþjóðalaga í milliríkjasamskiptum og þau stuðla ennfremur að stöðugri mótun lagaramma á ólíkum sviðum. Þetta skiptir smærri ríki miklu eins og síðar verður vikið að. Það hefur farið saman að styrkleiki Sameinuðu þjóðanna hefur falist í almennri aðild ríkja heims og að aðild hefur verið talin endanleg staðfesting sjálfstæðis ríkjanna. Við stofnun Sameinuðu þjóðanna voru aðildarríkin 51 en eru nú orðin 191 og flest þeirra sem bæst hafa við teljast til smærri ríkja. Þess má geta að innan Sameinuðu þjóðanna er svonefndur vettvangur smærri ríkja (Forum of Smaller States) sem eru skilgreind þannig að fólksfjöldi sé undir 10 milljónum og þar eru nú 88 ríki.
Fyrrnefnd skilgreining á því hvað teljast til smærri ríkja gagnast til að framkalla samstöðu innan Sameinuðu þjóðanna en er annars lítt nothæf. Ef mæla á öryggi og velferð borgaranna og utanríkispólitísk áhrif, skiptir þá öllu hvort tæplega eða rúmlega 10 milljónir manna búa í ríkinu? Er það gefið að fámenn ríki séu veikburðugari heldur en fjölmenn? Til samanburðar má nefna sem dæmi að Íslendingar eru jafn margir og íbúar Malmö, Svíar eru u.þ.b. jafn margir Parísarbúum, og Frakkar eru jafn margir íbúum Henan-fylkis í Kína. Það þýðir ekki að staða Íslands sé sambærileg við Malmö, eða Svíþjóðar við París, eða Frakklands við Henan-fylki. Við mat á stærð ríkja, að svo miklu leyti sem þess er þörf, er skynsamlegast að vega innbyrðis fólksfjölda, landfræðilega stærð og efnahag. Áhugavert er að velta því fyrir sér hvort að síðastnefndi þátturinn vegi ekki þyngst."

Ræðu utanríkisráðherra á hádegisverðarfundinum í dag er að finna í viðhengi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 2. september 2003


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics