Hoppa yfir valmynd

Frumvarp um frestun gjalda afgreitt úr ríkisstjórn

Fyrirtækjum verður veittur mánaðarfrestur á helmingi tryggingagjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars, skv. frumvarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í kvöld. Gert er ráð fyrir því að þær lagabreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu hafi í för með sér seinkun á tekjum ríkissjóðs að fjárhæð 22 milljarðar króna. Stefnt er að því að frumvarpið verði að lögum á morgun, föstudaginn 13. mars.

Eindagi staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds ætti að óbreyttu að vera 16. mars. Með samþykkt frumvarpsins verður eindaga seinkað til 15. apríl vegna helmings þeirra gjalda sem greiða hefði átt í síðasta lagi nk. mánudag. Meðan greiðslufrestur varir samkvæmt frumvarpinu verður unnið að útfærslu nýrrar leiðar til að tryggja fyrirtækjum í erfiðleikum úrræði til greiðsludreifingar.

Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar 10. mars, um markvissar aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Aðgerðirnar miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Meðal aðgerða sem þar voru kynntar var að veita fyrirtækjum svigrúm sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls og er brugðist við því með ofangreindu frumvarpi um frestun gjalddaga.

Um tímabundna og almenna einskiptisaðgerð er að ræða og því er lagt til að breytingin verði gerð með bráðabirgðaákvæðum í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um tryggingagjald.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics