Hoppa yfir valmynd

Hagræðing og bætt hagsmunagæsla með breytingum í utanríkisþjónustunni

Nýr forsetaúrskurður nr. 8/2018 um sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðisskrifstofur tók gildi í dag, en með honum eru gerðar veigamiklar breytingar á skipulagi utanríkisþjónustunnar í því augnamiði að auka skilvirkni hennar og sveigjanleika og nýta betur fjármuni og mannauð. Úrskurðurinn felur m.a. í sér lokun tveggja sendiráða, bætt tengsl við lykilríki í Afríku og tilfærslu á fyrirsvari Íslands gagnvart rúmlega fjörutíu ríkjum.

Breytingarnar á forsetaúrskurðinum eiga sér rætur í skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar sem kom út í september sl. og inniheldur ríflega 150 tillögur um bætta hagsmunagæslu í síbreytilegum heimi. Í skýrslunni var lögð áhersla á að þjóna enn betur viðskiptahagsmunum Íslands á erlendum vettvangi sem hafa jafnan verið ráðandi þáttur í vali á staðsetningu sendiráða. Þannig eru sendiráð Íslands í höfuðborgum þeirra ríkja sem mynda tæplega tvo þriðju hluta utanríkisviðskipta Íslands.

Með þessum nýja forsetaúrskurði færist fyrirsvar ríflega þrjátíu ríkja heim í utanríkisráðuneytið, m.a. á grundvelli viðskiptahagsmuna. Í ráðuneytinu hefur verið stofnuð sérstök deild sendiherra með búsetu á Íslandi, sem mun annast fyrirsvar margra þessara ríkja og styrkja umgjörð um mikilvæg tvíhliða samskipti og þverlæg áherslumál, svo sem jafnréttismál og jarðhitahagsmuni. Til samræmis við þá auknu áherslu á viðskiptahagsmuni í Asíu sem kynnt var í áðurnefndri skýrslu er einnig fyrirsvar gagnvart m.a. Indónesíu, Malasíu og Singapúr fært til deildar heimasendiherra í utanríkisráðuneytinu. Stofnun hinnar nýju deildar og heimfærsla fyrirsvars ríkjanna miðar að því að draga úr kostnaði, enda er útsendum starfsmönnum samtímis fækkað á nokkrum sendiskrifstofum.

Afríka er ört stækkandi markaður og því verður starfsemi sendiráðsins í Kampala efld og fyrirsvar gagnvart lykilríkjum fært þangað úr utanríkisráðuneytinu og frá sendiráði Íslands í París. Þá mun sendiráðið í Kampala einnig gegna hlutverki fastanefndar gagnvart Afríkusambandinu í Addis Ababa og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna í Nairobi, enda hefur mikilvægi þeirra aukist á undanförnum árum.
Með aukinni áherslu á mannréttindi og alþjóðasamvinnu og til að auka samræmingu þessara mála innan Stjórnarráðsins, verður fyrirsvar Íslands gagnvart Evrópuráðinu í Strassborg fært í utanríkisráðuneytið.

Sendiráðum Íslands í Mapútó og Vín verður lokað, en í Vín verður áfram starfrækt fastanefnd gagnvart Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og öðrum alþjóðastofnunum í Vín.


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics