Hoppa yfir valmynd

Skýrsla um nýtingu úrræða í heimsfaraldri: Hátt í 40 milljarðar í beinan stuðning til heimila og fyrirtækja

Heimili og fyrirtæki hafa til þessa fengið 38,2 ma.kr. í beinan stuðning vegna heimsfaraldurs kórónuveiru að því er fram kemur í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um nýtingu efnahagsúrræða vegna faraldursins. Þá hafa 19,5 ma.kr. farið í frestun skattgreiðslna, 20 ma.kr. í frestun aðflutningsgjalda auk þess sem 6,6 ma.kr. hafa verið lánaðir með ríkisábyrgð. Heimilin munu auk þess hafa fengið fyrirframgreiddan um 21 ma.kr. úr séreignarsparnaði fyrir árslok.

Stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar fjölda efnahagsúrræða vegna heimsfaraldursins sem nýtast heimilum og fyrirtækjum með beinum hætti. Úrræðunum er annars vegar ætlað að styðja við eftirspurn til skemmri tíma og hins vegar að minnka óafturkræfan skaða á getu hagkerfisins til að ná vopnum sínum að nýju þegar tímabundnum áhrifum faraldursins sleppir.

Þessar aðgerðir eiga þátt í því að ríkissjóður verður rekinn með 260-270 ma.kr. halla árin 2020 og 2021 í stað þess að vera nærri í jafnvægi líkt og stefnt var að fyrir faraldurinn. Hallinn er þó að stærstum hluta til kominn vegna sjálfvirks viðbragðs skattkerfis og atvinnuleysisbóta við minni efnahagsumsvifum. Að auki hafa útgjöld verið aukin beint vegna faraldursins, ekki síst á sviði heilbrigðis-, félags- og menntamála. Þessu til viðbótar hefur verið ákveðið að ráðast í viðamikið fjárfestingarátak. Eftir því sem faraldurinn hefur dregist á langinn og sóttvarnaraðgerðir verið hertar hafa úrræði tekið breytingum, sum verið framlengd og ný kynnt til sögunnar. Alþingi samþykkti í gær frumvarp um tekjufallstyrki og framlengingu lokunarstyrkja og í síðustu viku var greint frá fyrirhuguðum viðspyrnustyrkjum sem nú eru í mótun.

Skýrslan sem nú er birt fjallar um stöðu aðgerða í október. Hún er unnin í samstarfi við starfshóp um eftirfylgni efnahagsaðgerða og grundvallast á gagnaskilum Skattsins, Vinnumálastofnunar og Seðlabankans til ráðuneytisins og Hagstofu Íslands sem hefur tekið gögnin sérstaklega saman.

3.000 fyrirtæki nýtt úrræði stjórnvalda

Fram kemur í skýrslunni að úrræði stjórnvalda hafa verið nýtt af um 3.000 fyrirtækjum. Um 65% fjárhæðarinnar hefur farið til fyrirtækja í ferðaþjónustu eða skyldum greinum. Ferðaþjónustan hefur verið fyrirferðarmest í öllum stærstu úrræðunum að lokunarstyrkjum frátöldum, en þar hefur mest verið greitt til fyrirtækja í ýmissi persónulegri þjónustu og heilbrigðisþjónustu. Þessu til viðbótar var veitt ríkisábyrgð á lánalínur til handa Icelandair auk þess sem sérstök ríkisábyrgð var veitt vegna vanda ferðaskrifstofa.

Hlutabætur umfangmesta aðgerðin fyrir einstaklinga

Sé litið til greiðslu hlutabóta, barnabótaauka, nýtingu ferðagjafar og útgreiðslu séreignarsparnaðar hafa heimilin fengið greidda samtals 43,8 ma.kr. Hlutabætur eru umfangsmesta aðgerðin til handa einstaklingum en um 36 þúsund einstaklingar hafa fengið hlutabætur sem nema 19,8 ma.kr. Greiddir hafa verið 35 ma.kr. í almennar atvinnuleysisbætur.

Aðgerðir, ma.kr. Beinn kostnaður
til þessa
Tilfærslur/
ábyrgðir
Upphaflegt mat
á hámarks-
heildaráhrifum
Atvinnuleysisbætur í minnkuðu starfshlutfalli... 19,8 - 34 ,0
Greiðsla launa á uppsagnarfresti 10,5 - 27,0
Laun í sóttkví 0,3 - 2,0
Ferðagjafir 0,6 - 1,5
Barnabótaauki 3,0 - 3,1
Endurgreiðsla virðisaukaskatts 2,5 - 9,0
Frestun staðgreiðslu - 19,5 75,0
Lokunarstyrkir 1,0 - 2,5
Stuðningslán - 6,3 28,0
Viðbótarlán (Brúarlán) - 0,7 35,0
Niðurfelling gistináttagjalds 0,3 - 1,6
Frestun á greiðslu aðflutningsgjalda - 20,0 13,0
Niðurfelling tollafgreiðslugjalda 0,2 - 0,6
Samtals 38,2 46,5 232,3
Útgreiðsla séreignarsparnaðar - 18,8 9,5

 


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics