Hoppa yfir valmynd

Ráðherra fundar með utanríkisráðherra Eistlands í Tallinn

OS-og-UP-raedast-vid
OS-og-UP-raedast-vid

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, í Tallinn, en utanríkisráðherra er í borginni til að taka þátt í Íslandsdegi, hátíð sem Eistar efna til í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá því að Eistland fékk aftur sjálfstæði og að Íslendingar urðu fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði þeirra.

Á fundinum ræddu utanríkisráðherrarnir stöðu aðildarviðræðna Íslands að Evrópusambandinu og ítrekaði Paet stuðning Eista við Íslendinga í ferlinu. Eistar hafa lagt Íslendingum til sérfræðiaðstoð og miðlað af reynslu sinni frá því þeir sömdu um aðild sína að Evrópusambandinu til dæmis í landbúnaðar-, byggða- og myntmálum.

Ráðherrarnir ræddu um stöðuna á evrusvæðinu en Eistar tóku upp evruna í byrjun þessa árs. Paet sagði reynsluna af upptöku evrunnar góða í Eistlandi, fjárfestingar hefðu aukist á tímabilinu og útflutningur vaxið umtalsvert og atvinnuleysi minnkað. Engar umræður væru um að snúa til baka til fyrra kerfis þrátt fyrir óróa á fjármálamörkuðum. Fjárfestar sem litu til þess að starfa í landinu þyrftu nú ekki að hafa áhyggjur af gjaldeyrissveiflum smárrar myntar sem væri breyting frá því sem áður hefði verið.

Össur og Paet ræddu einnig samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins þar sem Eistar buðu Íslendingum til samstarfs um aðgerðir gegn tölvuglæpum en þeir reka sérstaka miðstöð í tölvuvörnum.

Utanríkisráðherra þakkaði starfsbróður sínum sérstaklega fyrir þann heiður sem Eistar sýna Íslendingum en á Íslandsdeginum á sunnudag verður íslensk tónlist, ljósmyndun, hönnun og matargerðarlist áberandi í höfuðborginni. Þá mun utanríkisráðherra taka þátt í málþingi á morgun, laugardag, sem eistneski utanríkisráðherrann stýrir, um reynslu Eista og annarra Eystrasaltsríkja af þeim breytingum sem átt hafa sér stað frá því að löndin endurheimtu sjálfstæði sitt frá Sovétríkjunum. Þar munu taka þátt fyrrum áhrifamenn sem tóku þátt í atburðunum fyrir 20 árum og utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics