Hoppa yfir valmynd

Opinber heimsókn utanríkisráðherra til Kóreu

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 065



Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, mun halda í opinbera heimsókn til Kóreu 27. ágúst til 1. september næstkomandi.
Með í för utanríkisráðherra verður fjölmennasta viðskiptasendinefnd sem fylgt hefur íslenskum ráðherra í opinbera
heimsókn erlendis, en sendinefndin telur 14 fulltrúa frá fyrirtækjum, auk fulltrúa frá Útflutningsráði Íslands, iðnaðar- og
viðskiptaráðuneytinu, Fjárfestingaskrifstofu Íslands, Félagi íslenskra stórkaupmanna og Iðntæknistofnun, samtals 22 aðilar.

Í Seoul í Kóreu mun utanríkisráðherra eiga fundi með forsætisráðherra Kóreu, Lee Soon-Sung, utanríkisráðherranum,
Gong Ro-Myung, og iðnaðar-, viðskipta- og orkumálaráðherranum, Park Jae-Yoon. Utanríkisráðherra mun eiga fundi með
forseta útflutnings- og fjárfestingaráðs Kóreu, Kim Eun-Sang. Staðið verður fyrir viðamikilli íslenskri fyrirtækja- og
fjárfestingakynningu og utanríkisráðherra mun eiga fundi með forsvarsmönnum leiðandi fyrirtækja í Kóreu og kynna sér
fiskmarkað í Seoul.

Utanríkisráðherra fer ásamt sendinefndinni til hafnarborgarinnar Pusan þar sem hann mun eiga fund með vara-borgarstjóra
Pusan. Utanríkisráðherra mun standa þar fyrir fyrirtækja og fjárfestingakynningu, með svipuðum hætti og í Seoul, kynna
sér fiskmarkað borgarinnar og heimsækja fyrirtæki.

Undirbúningur fyrir þessa heimsókn hefur staðið yfir í um það eitt bil ár í náinni samvinnu við Útflutningsráð Íslands. Þessi
viðskiptaferð er farin í framhaldi af víðtækri markaðsrannsókn sem Útflutningsráð Íslands stóð fyrir í Kóreu og kynnti árið
1995.

Viðskipti landanna hafa verið að aukast á seinni árum, en Kórea hefur undanfarin ár verið meðal tíu fremstu
sjávarútvegsþjóða í heiminum. Kóreumenn hafa gert fimm ára áætlun um uppbyggingu sjávarútvegs í landinu og munu
verja til hennar stórum fjárhæðum. Markaðurinn í Kóreu var um árabil mjög lokaður en hefur að undanförnu verið að
opnast. Kórea hefur verið að þróast frá vanþróuðu láglaunalandi í háþróað iðnaðarland og efnahagur landsins er sá
næstbesti í heimsálfunni á eftir Japan.

Þessi viðskiptaferð Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, er því farin á tímum mikilla breytinga og tækifæra fyrir
íslensk fyrirtæki í Kóreu.

Meðfylgjandi er dagskrá ferðarinnar og þátttakendalisti.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 22. ágúst 1996.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics