Hoppa yfir valmynd

Annar fundur fjármálastöðugleikaráðs 2018

Fjármálastöðugleikaráð hélt sinn annan fund á árinu 2018 þriðjudaginn 20. mars og framhaldsfund 13. apríl.

Á fundi ráðsins var rætt um áhættu í fjármálakerfinu sem er, enn sem komið er, innan hóflegra marka og merki eru um að spenna í þjóðarbúskapnum sé byrjuð að slakna. Þrátt fyrir það eru vísbendingar um að áhætta sé tekin að aukast í fjármálakerfinu. Skuldir tóku að aukast fyrir rúmu ári og vaxa um þessar mundir hraðar en nafnvirði landsframleiðslu. Merki aukinnar áhættusækni sjást í bankakerfinu og víðar. Hátt fasteignaverð felur í sér töluverða áhættu sem tengist að nokkru leyti örum vexti ferðaþjónustu, sem farið er að draga úr. Gangi spár eftir, mun ytri jöfnuður þjóðarbúsins á hinn bóginn styðja við stöðugleika á næstu árum og fjárhagsleg staða heimila og fyrirtækja er enn sterk. Eiginfjárhlutföll fjármálafyrirtækja hafa lækkað m.a. vegna aukinna arðgreiðslna en standast þó skilgreindar eiginfjárkröfur. Viðnámsþróttur viðskiptabankanna er enn talsverður.

Á fundi ráðsins voru samþykkt tilmæli um óbreytta eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis fjármálafyrirtækja og kerfisáhættu, en samþykkt að lengja aðlögunartíma innlánsstofnana, sem ekki teljast kerfislega mikilvægar, að síðarnefnda aukanum. Þær þurfa nú að uppfylla 3% eiginfjárauka fyrir 1. janúar 2020 í stað 1. janúar 2019. Þá var samþykkt að beina tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um að sveiflujöfnunarauki yrði hækkaður um 0,5 prósentustig, í 1,75%. Sú hækkun mun taka gildi ári eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics