Hoppa yfir valmynd

Stofnun Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 084

Í dag var stofnuð Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Með stofnun Útflutningsskrifstofunnar er leitast við að efla og skapa sóknarfæri til handa rétthöfum tónlistar. Markmið skrifstofunnar er að auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás og í að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum á þessu sviði.

Með stofnun Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar er komið á fót þjónustu- og upplýsingamiðstöð fyrir tónlistargeirann í víðum skilningi og á sambærilegan hátt við það sem þekkist hjá Norðurlöndunum. Verkefni Útflutningsskrifstofu verður m.a. að byggja upp stoðkerfi íslenskra tónlistarmanna sem leita frama á alþjóðavettvangi, jafnframt því að stuðla að kynningu á íslenskri tónlist á alþjóðlegum tónlistarráðstefnum og mörkuðum.

Stofnaðilar Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar eru Samtónn (samtök tónlistarrétthafa) og Landsbanki Íslands, en auk fjárframlaga frá stofnaðilum leggja utanríkisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti til fjárframlög til reksturs Útflutningsskrifstofunnar. Árleg fjárframlög til reksturs skrifstofunnar nema 17,5 milljónum króna á ári yfir þriggja ára tímabil, þar af eru framlög ráðuneytanna 10 milljónir króna, sem skiptast þannig að menntamálaráðuneyti leggur til 5 milljónir króna, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti 2,5 milljónir króna og utanríkisráðuneyti 2,5 milljónir króna.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics