Hoppa yfir valmynd

Íslensk stjórnvöld viðurkenna formlega sjálfstæði Kósóvó

Íslensk stjórnvöld hafa formlega viðurkennt sjálfstæði Kósóvó. Var það gert í bréfi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sendi Hashim Thaci forsætisráðherra Kósósvó í morgun. Hún hefur ennfremur tilkynnt serbneskum yfirvöldum um málið.

„Við væntum þess að Kósóvó sýni í verki fulla virðingu fyrir mannréttindum og réttindum minnihlutahópa, eins og það hefur skuldbundið sig til í sjálfstæðisyfirlýsingunni," sagði Ingibjörg Sólrún en hún er stödd í Brussel þar sem hún á fimmtudag mun sitja fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins og alþjóðaráðstefnu kvenleiðtoga um aðkomu kvenna að friðar og öryggismálum. Í bréfinu leggur hún áherslu á að Kósóvó sé lýðveldi margra þjóða og mikilvægt sé að það hafi jafnræði og réttarvernd allra að leiðarljósi. Þetta sé í anda friðaráætlunar Martti Ahtisaaris, sáttasemjara Sameinuðu þjóðanna, en yfirvöld í Kósóvó hafa heitið því að framfylgja áætluninni.

Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði 17. febrúar sl. í kjölfar árangurslausra samningaviðræðna um framtíð Kósóvó, er fram fóru undir stjórn Ahtisaaris. Utanríkisráðherra sagði mikilvægt að áfram yrði unnið að því að ná samkomulagi um framtíð Kósóvó sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna gætu við unað. Þá væri áframhaldandi uppbyggingarstarf alþjóðastofnana í Kósóvó mikilvægt, en Íslendingar leggja sitt af mörkum til þess. Á vegum Íslensku friðargæslunnar fer Íslendingur fyrir skrifstofu Evrópuráðsins í Kósóvó, auk þess sem fulltrúar UNIFEM standa að verkefnum þar og í nágrannaríkjunum og Flugmálastjórn hefur eftirlit með gæðamálum flugvallarins í höfuðborginni Pristína.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics