Hoppa yfir valmynd

Fjármálaráðherra kjörinn varaformaður bankaráðs AIIB

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var kjörinn varaformaður bankaráðs (e. board of governors) asíska innviðafjárfestingarbankans (AIIB) á ársfundi bankans sem haldinn var í Lúxemborg á föstudag og laugardag.

AIIB er ung en öflug og ört vaxandi alþjóðafjármálastofnun. Hún er stofnuð utan um samstarf þjóða til að taka á innviðafjárfestingarþörf í Asíu, styrkja tengingar og hagræna þróun á svæðinu og styðja þannig við hagvöxt og aðgengi íbúa að grunnþjónustu. Kínverjar höfðu forystu um stofnun bankans og er þetta í raun fyrsta alþjóðastofnunin sem þeir leiða. Bankinn hóf starfsemi í janúar 2016, eftir um 15 mánaða undirbúningstíma. Við skipulag bankans er byggt á reynslu alþjóðaþróunarbanka og er áhersla lögð á opna, óháða og gagnsæja stjórnarhætti og skýr ábyrgðarskil.

Ísland var meðal 57 stofnenda, ásamt öllum Norðurlöndunum, en eftir ársfundinn í vikunni eru meðlimir orðnir 100. Hlutafé bankans er 100 milljarðar bandaríkjadala. Ísland er í kjördæmi með Bretlandi, Danmörku, Noregi, Póllandi, Rúmeníu Sviss, Svíþjóð og Ungverjalandi. Löndin deila saman stjórnarmanni í bankanum sem nú er frá Bretlandi. Ísland var með varamann í stjórn fyrsta hálfa starfsár bankans og mun eiga varamann næst árin 2022-2024. Í vikunni samþykkti bankinn að fjármagna, ásamt efnahags- og þróunarbankanum, fyrsta jarðvarmaorkuverkefni bankans, í Tyrklandi, en að því koma tvö íslensk ráðgjafafyrirtæki. Bankinn hefur nú samþykkt fjárfestingar í 40 verkefnum í 27 löndum fyrir samtals um 8 milljarða dollara.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics