Hoppa yfir valmynd

Fundur Halldórs Ásgrímssonar með Franco Frattini utanríkisráðherra Ítalíu

Nr. 108

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson átti í dag fund með Franco Frattini utanríkisráðherra Ítalíu en fundurinn er haldinn í tilefni þess að Ítalía fer með formennsku í Evrópusambandinu.
Ráðherrarnir ræddu tvíhliðasamskipti þjóðanna sem þeir voru sammála um að væru í góðum farvegi. Talsverð umræða var um þátttöku fyrirtækisins Impregilo í virkjunarframkvæmdum á Íslandi. Frattini lagði áherslu á að hæstráðendur fyrirtækisins hefðu mikinn metnað til þess að standa vel að framkvæmdum við Kárahnjúka og þeir væru staðráðnir í því að standa við allar sínar skuldbindingar í tengslum við virkjunarsamninginn. Ákveðnir byrjunarörðugleikar hefðu komið fram sem ötullega væri unnið að að leysa.
Ráðherrarnir lýstu yfir gagnkvæmum stuðningi við framboð beggja ríkja til öryggisráðsins en Ítalía hefur lýst yfir framboði fyrir tímabilið 2007-2008 en Ísland 2009-2010.
Halldór Ásgrímsson vakti máls á þeim vanda hversu lítinn tollfrjálsan kvóta Ísland hefði á mörkuðum ESB fyrir kindakjöt og sagði það áhyggjuefni að Ísland myndi fara yfir kvótann einkum vegna aukins útflutnings til Ítalíu. Frattini kvaðst hafa skilning á þessari stöðu og sagðist ætla að beita sér í málinu.
Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að ESB og Ísland semdu samhliða um loftferðasamninga og kvaðst Frattini ætla að taka það mál upp gagnvart framkvæmdastjórninni enda færu hagsmunir beggja saman á því sviði.
Aðspurður greindi Frattini frá því að ötullega væri unnið að því að fullgilda tvísköttunarsamning milli Íslands og Ítalíu og sagði hann að samningurinn ætti að geta öðlast gildi fyrir áramót.
Ráðherrarnir ræddu ítarlega breytingarnar sem nú standa fyrir dyrum á stofnskrá ESB eða svokallaðri stjórnarskrá ESB og sagði Halldór Ásgrímsson afar mikilvægt að ESB ræddi við EFTA-ríkin um einstök atriði í því sambandi sem gætu haft bein áhrif á rekstur samningana um EES og Schengen. Í þessu samhengi vakti Halldór Ásgrímsson athygli á mikilvægi þess að EFTA-ríkin og ESB ræddu möguleika á aðlögun EES-samningsins að þeim breytingum sem hafa orðið á Rómarsamningnum síðan EES-samingurinn var gerður. Brýnt væri að ræða þetta nú m.a. í ljósi breytinga á stofnskrá ESB.
Þá ræddu ráðherrarnir einnig áherslur Íslands á formennskutímabili þess í Norðurskautsráðinu og samstarfsfleti Íslands og ESB að því er varðar málefni norðursins. Frattini sagði þetta samstarf afar mikilvægt fyrir ESB. Einnig ræddu ráðherrarnir samstarf NATÓ og ESB á sviði öryggismála og voru sammála um mikilvægi þess að þróun öryggismála innan ESB mætti hvorki gerast á kostnað NATÓ né tengslanna yfir Atlantshafið. Loks ræddu ráðherrarnir málefni Íraks og ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 09. október 2003


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics