Hoppa yfir valmynd

Málþing um samvinnu í jarðhitamálum

Frá ráðstefnunni
Jarðvarmaráðstefna í Brussel - mars 2012


Fulltrúar stjórnvalda og iðnaðar frá Íslandi, Japan og Evrópusambandinu komu saman í Brussel í síðustu viku á málþingi um samvinnu í jarðhitamálum. Málþingið fór fram í húsakynnum Efnahags- og félagsmálanefndar ESB. Fundarmenn voru sammála um að jarðvarmi sé sífellt að verða mikilvægari kostur sem orkugjafi enda hreinn, stöðugur og varanlegur auk þess sem hann er að finna víða um heim.

Málþingið var skipulagt af hagsmunasamtökum jarðorkuframleiðenda (e. EGEC), fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu og sameiginlegri stofnun ESB og Japan um iðnaðaðarmál.

Jónas Ketilsson frá Orkustofnun Íslands fjallaði um notkun og stefnu Íslendinga í jarðvarmamálum. Hann talaði m.a. um að jarðvarmi væri nýttur bæði til raforkuframleiðslu og beinnar upphitunar og væri 66% af þeirri orku sem Ísland nýtir. Runólfur Maack frá Mannviti kynnti verkefni fyrirtækisins á Íslandi og víða um heim, þá sérstaklega í Ungverjalandi.

Fulltrúar ESB á málþinginu voru Agustin Escardino Malva, yfirmaður rannsóknar- og nýsköpunarsviðs framkvæmdastjórnar ESB, og Carlo Minini frá Turboden. Gunter Siddiqi, yfirmaður jarðvarmarannsókna hjá orkustofnun Sviss var líka viðstaddur. Nobuhiko Hara frá Mitsubishi Heavy Industries Ltd. hélt tölu um innleiðingu jarðvarmanýtingar í Japan og Kuniko Urashima, starfsmaður vísinda- og tæknistofnunar MEXT í Japan fór yfir stefnubreytinguna frá kjarnorku yfir í jarðvarma. 

Síðastur tók Stéphane Buffetaut, forseti orkumála hjá Efnahags- og félagsmálanefnd ESB til máls en hann fjallaði um framtíðarstefnu í þróun og nýtingu jarðvarma. Málþinginu stýrðu, Gerd Wolf, prófessor og varaforseti orkumála hjá Efnahags- og félagsmálanefnd ESB, Andri Lúthersson, sendiráðunautur við fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu,og Burkhard Sanner forseti EGEC. 

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics