Hoppa yfir valmynd

Saman á útivelli – Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar COVID-19

Starfshópur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um stuðning utanríkisþjónustunnar við útflutningsgreinar var falið að móta tillögur að því hvernig utanríkisþjónustan geti betur stutt við atvinnulífið vegna efnahagslega afleiðinga COVID-19 heimsfaraldursins. Starfshópurinn var skipaður þeim Auðunni Atlasyni sendiherra, Diljá Mist Einarsdóttur, aðstoðarmanni ráðherra, og Einari Gunnarssyni sendiherra. Í skýrslunni setur hópurinn fram tólf tillögur að breyttum áherslum í starfi utanríkisþjónustunnar á næstu mánuðum og misserum.

Í skýrslu starfshópsins Saman á útivelli – Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar COVID-19 er að finna tólf tölusettar tillögur til ráðherra sem skiptast í fjóra flokka. Í fyrsta lagi er um að ræða tillögur sem lúta að efldri aðstoð við íslensk útflutningsfyrirtæki, í öðru lagi eru tillögur um gerð og rekstur alþjóðasamninga á sviði milliríkjaviðskipta, þriðji flokkur tillagna snýr að almennri meðferð utanríkismála og í fjórða lagi er um að ræða tillögur um starfshætti utanríkisþjónustunnar. Samandregið kemst starfshópurinn að þeirri niðurstöðu að beita megi utanríkisþjónustunni með afgerandi hætti til aukins stuðnings íslenskum útflutningshagsmunum en um leið að leggja verði áframhaldandi rækt við aðkallandi úrlausnarefni á sviði alþjóðamála sem ætla má að muni magnast upp vegna COVID-19.

Vinna hópsins byggði á innleggi frá aðilum atvinnulífsins og starfsfólki ráðuneytisins, og sömuleiðis á fjölmörgum samtölum við starfsfólk og haghafa. Tillögurnar eru settar fram til að skerpa enn betur á áherslum í starfi utanríkisþjónustunnar á næstu mánuðum og misserum og er það mat starfshópsins að tillögurnar séu vel til þess fallnar.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics