Hoppa yfir valmynd

Spurningalisti framkvæmdastjórnar ESB til Íslands

Skv. samþykktum ESB frá árinu 1993, svokölluðum „Kaupmannahafnarviðmiðum", þurfa umsóknarríki að uppfylla þrjú skilyrði áður en til aðildar kemur. Í fyrsta lagi þarf ríki að virða grundvallarreglur lýðræðis- og réttarríkja og virða almenn mannréttindi, þ. á m. réttindi minnihlutahópa. Í öðru lagi þurfa ríkin að hafa markaðshagkerfi sem ræður við samkeppni innan sambandsins, og í þriðja lagi þarf umsóknarríki að vera í stakk búið til þess að uppfylla þær skuldbindingar sem fylgja aðild, þ. á m. þær sem lúta að auknu pólitísku og efnahagslegu samstarfi.

Spurningar framkvæmdastjórnar ESB eru þannig hluti af samræmdu umsóknarferli sem er eins fyrir öll umsóknarríki og beinast þær að efnisþáttum fyrirhugaðra aðildarviðræðna. Auk þess er athyglinni beint að ýmsum innviðum viðkomandi ríkis, stofnanalegri uppbyggingu og stjórnkerfi. Á grundvelli svara íslenskra stjórnvalda mun framkvæmdastjórnin gefa leiðtogaráði ESB álit sitt á hæfni Íslands til að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Samtals eru spurningarnar rúmlega 2500 talsins og skiptast þær í um 2000 aðalspurningar og ríflega 500 undirspurningar. Þær skiptast í 33 kafla í samræmi við kaflaskiptingu löggjafar ESB að því undanskildu að ekki er spurt út í kafla 34 og 35 í löggjöfinni en þeir fjalla um stofnanir sambandsins og önnur mál. Þannig fjallar fyrsti kafli spurningalistans um frjálst vöruflæði, næsti kafli um frjálsa för vinnuafls og svo koll af kolli.

Öll ráðuneyti stjórnarráðsins munu taka þátt í því að svara spurningum framkvæmdastjórnarinnar, sem og undirstofnanir þeirra eftir því sem við á, og hafa sérstakir umsjónarmenn verið tilnefndir í hverju ráðuneyti. Utanríkisráðuneytið hefur umsjón með verkefninu. Vonir standa til að þessari vinnu megi ljúka hratt og vel enda er gert ráð fyrir að í mörgum tilvikum sé unnt að nýta svör sem íslensk stjórnvöld hafa unnið í gegnum tíðina, s.s. í tengslum við rekstur EES-samningsins og þátttöku í starfi alþjóðastofnana.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics