Hoppa yfir valmynd

Forsætisráðherra á leiðtogafundi í Stokkhólmi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sótti leiðtogafund Norðurlanda og Indlands í Stokkhólmi í dag. Þátttakendur á fundinum voru forsætisráðherrar allra Norðurlandanna og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. Þá átti Katrín einnig tvíhliða fund með Narendra Modi.

Katrín og Narendra Modi ræddu á fundi sínum um almenn samskipti landanna, viðskipti og samstarf á sviði rannsókna og menntunar. Modi tók sérstaklega upp möguleika á auknu samstarfi á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, og þá einkum jarðvarma. Þá ræddu þau bláa hagkerfið og möguleika á nýsköpun í sjávarútvegi.

Meðal umræðuefna á fundi norrænu forsætisráðherranna með Modi voru viðskiptasambönd ríkjanna, tækniframfarir og nýsköpun, alþjóðleg öryggismál og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á sviði umhverfis og jafnréttis.

Katrín sagði að loknum fundi að Norðurlöndin eigi mikil tækifæri í því að skipuleggja sameiginlega fundi með stærri ríkjum. „Ljóst er að Norðurlöndin eiga mikil tækifæri í aukinni samvinnu við Indland, ekki síst á sviði nýsköpunar og umhverfismála. Þá var ánægjulegt að rík áhersla var á jafnréttismál á fundinum.“

Í sameiginlegri fréttatilkynningu af fundi leiðtoganna kemur m.a. fram að forsætisráðherrar Norðurlandanna og Indlands hyggist styrkja og efla samskiptin einkum varðandi alþjóðleg öryggismál, hagvöxt, nýsköpun og loftslagsbreytingar.

Hér má finna sameiginlega fréttatilkynningu af fundi leiðtoganna: Sameiginleg fréttatilkynning af fundi leiðtoganna


Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics