Hoppa yfir valmynd

Samkomulag um vernd viðkvæmra vistkerfa hafsins gegn skaðlegum áhrifum fiskveiða

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Samningaviðræðum um fiskveiðiályktun allsherjarþings SÞ lauk í gær í New York með almennu samkomulagi. Í viðræðunum var m.a. fjallað um vernd viðkvæmra vistkerfa hafsins gegn skaðlegum áhrifum fiskveiða og náðist samkomulag um hertar aðgerðir í þessu skyni. Í drögum að ályktuninni er því beint til ríkja og svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana að grípa til sérstakra varúðarráðstafana til að vernda viðkvæm vistkerfi hafsins, svo sem kaldsjávarkóralla, neðansjávartinda og hverastrýtur, gegn skaðlegum áhrifum fiskveiða.

Samkomulagið felur í sér raunverulegar verndunaraðgerðir þar sem öll ríki skulu innan tveggja ára setja reglur um veiðar skipa sinna á úthafinu með tilliti til verndunar viðkvæmra vistkerfa hafsins, einhliða eða á vettvangi svæðisbundins samstarfs. Skulu ríki vernda sérstaklega þau viðkvæmu hafsvæði sem þegar eru þekkt og stöðva jafnframt veiðar án tafar þar sem slík svæði uppgötvast. Að því er varðar svæði þar sem engin svæðisbundin fiskveiðistjórnunarstofnun er til staðar skulu ríki annaðhvort setja slíkar verndunarreglur eða leggja algert bann við botnveiðum skipa sinna.

Allsherjarþing SÞ hefur á undanförnum árum mjög látið sig þetta málefni varða. Enginn efnislegur ágreiningur hefur ríkt um nauðsyn þess að vernda hin viðkvæmu vistkerfi fyrir skaðlegum áhrifum fiskveiða, enda hefur það bæði þýðingu fyrir vöxt og viðgang fiskstofna til lengri tíma litið og fyrir verndun líffræðilegs fjölbreytileika hafsins. Á hinn bóginn hefur ríki greint á um leiðir til að ná þessu markmiði. Þannig hafa t.a.m. komið fram tillögur um altækt alþjóðlegt bann við botnvörpuveiðum á úthafinu sem mörg af helstu fiskveiðiríkjum heims, svo sem aðildarríki Evrópusambandsins, Kanada, Japan, Kína, Kórea og Rússland, auk Íslands, hafa ekki talið raunhæfa leið að settu marki.

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum tekið virkan þátt í verndun viðkvæmra vistkerfa hafsins gegn skaðlegum áhrifum fiskveiða, bæði innan efnahagslögsögunnar svo og á úthafinu í samstarfi við aðrar þjóðir á vettvangi viðkomandi svæðastofnana. Hefur Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin (NEAFC), sem Ísland er aðili að, verið leiðandi í því starfi.

Íslensk stjórnvöld munu áfram mun beita sér fyrir vernd viðkvæmra vistkerfa hafsins í alþjóðlegu samstarfi og hyggjast í því samhengi m.a. leggja lið frekari aðgerðum til að koma í veg fyrir óábyrgar veiðar á úthafinu.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics