Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra fundar með aðstoðarutanríkisráðherra S-Afríku

Össur Skarphéðinsson ásamt Ebrahim I. Ebrahim aðstoðarutanríkisráðherra Suður Afríku
ÖS og Ebrahim, aðstoðarutanríkisráðherra S-Afríku

Mannréttinda- og loftslagsmál og málefni Afríku, Palestínu og BRICS-ríkjanna voru meginefni á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra og Ebrahim I. Ebrahim aðstoðarutanríkisráðherra Suður Afríku í dag. Fundurinn fór fram í Pretoríu, höfuðborg Suður Afríku.

Utanríkisráðherra lýsti efnahagslegri endurreisn Íslands eftir bankahrunið og þakkaði Suður Afríku fyrir stuðninginn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við efnahagsáætlun Íslands. Þá ræddu þeir um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eftir Durban-fundinn á síðasta ári.

Ebrahim fór yfir hvernig Suður Afríka ynni að mannréttindamálum til dæmis með því að miðla nýjum stjórnvöldum í Túnis og Egyptalandi af reynslu sinni við smíði stjórnarskrár en sú suður afríska sem gekk í gildi eftir Apartheid tímann hefur verið mörgum ríkjum fyrirmynd. Formaður stjórnarskrárnefndarinnar var Cyril Ramaphosa, aðalræðismaður Íslands í Jóhannesarborg.

Ráðherrarnir lýstu áhyggjum af því hversu seint gengi að veita Palestínumönnum fulla aðild að Sameinuðu þjóðunum. Ebrahim hrósaði Íslendingum fyrir að stíga fram fyrir skjöldu og viðurkenna sjálfstæði Palestínu en sögulega hefur verið mikið samstarf milli núverandi ráðamanna í Suður Afríku og Palestínu.

Ebrahim lýsti aukinni samvinnu Suður Afríku við Kína, Indland, Brasilíu og Rússland innan BRICS-hópsins svokallaða en það hugtak er notað yfir þau ríki sem hraðast hafa vaxið í heiminum. Suður Afríka hefur verið tekin inn í þann hóp sem leiðandi ríki í Afríku.

Ebrahim sem hefur um áratugaskeið verið áberandi í baráttu Afríska þjóðarráðsins, þakkaði Íslendingum fyrir þann stuðning sem fékkst frá Íslandi fyrir auknum rétti blökkumanna á Apartheid tímanum en Íslendingar studdu þá viðskiptaþvinganir sem settar voru á Apartheid stjórnina.

Suður Afríka þarf á næstu árum að fjárfesta mjög í innviðum landsins meðal annars í orkumálum. Össur lýsti fyrir ráðherranum samstarfsverkefni Íslands og Alþjóðabankans um aukna jarðhitanýtingu í Afríku og bauð upp á að Suður Afríka kannaði með að senda sérfræðinga til náms í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics