Hoppa yfir valmynd

Baráttan heldur áfram

Ávarp Geirs H. Haarde utanríkisráðherra

Málstofa Hafréttarstofnunar Íslands um þorskastríðin þrjú

– í tilefni af því að 30 ár eru liðin frá lokum landhelgismálsins

Hátíðasal Háskóla Íslands, 1. júní 2006

Góðir málstofugestir!

Ég vil í upphafi fagna því frumkvæði Hafréttarstofnunar Íslands að efna til þessarar málstofu í tilefni af því að í dag eru 30 ár liðin frá gerð samkomulags milli Íslands og Bretlands sem batt enda á langvinnar fiskveiðideilur landanna. Að baki voru þrjú þorskastríð sem áttu sér stað í kjölfar útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar í 12, 50 og loks 200 mílur. Hart var tekist á bæði á miðunum og í orðræðu stjórnvalda landanna, en hámarki náðu átökin í síðasta þorskastríðinu árin 1975 og 1976 með ásiglingum breskra herskipa á íslensk varðskip og slitum stjórnmálasambands milli landanna. Hvorki fyrr né síðar hefur eitt aðildarríki Atlantshafsbandalagsins gripið til þessa örþrifaráðs gagnvart öðru bandalagsríki, en það sýnir hve mikið íslensk stjórnvöld töldu í húfi fyrir framtíð þjóðarinnar.

Þótt Íslendingar hafi fengið fullt stjórnmálafrelsi með stofnun lýðveldis árið 1944 má segja að efnahagslegt sjálfstæði hafi ekki unnist fyrr en með fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum kringum landið hinn 1. júní 1976. Að mínu mati er mikilvægt að yngri kynslóðir séu vel meðvitaðar um þann þátt sjálfstæðissögu þjóðarinnar sem landhelgismálið er og því er það afar þarft framtak að gefa út heildstætt og aðgengilegt rit um þorskastríðin þrjú. Sú velmegun og þau lífsgæði, sem Íslendingar hafa notið undanfarna áratugi og búa enn við, urðu ekki til af sjálfu sér, heldur kostuðu þau staðfestu, þrautseigju og fórnir. Við stöndum í þakkarskuld við þá fjölmörgu sem lögðu lóð á vogarskálarnar í landhelgismálinu.

Íslenskt efnahagslíf er sem betur fer fjölþættara og reist á fleiri stoðum nú en fyrir 30 árum. Eggin eru ekki lengur öll í sömu körfunni. Engu að síður er ljóst að nýting auðlinda hafsins umhverfis landið lagði grunn að þeirri velferð sem við búum við í dag og við erum enn að verulegu leyti háð fiskveiðum. Því er brýnt að við höldum vöku okkar og stöndum vörð um það á alþjóðavettvangi sem áunnist hefur, einkum hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna og þau fullveldisréttindi strandríkja sem hann kveður á um. Þessi mikilvægu réttindi eru ekki sjálfgefin og takast þarf á við nýjar ógnir og áskoranir og breyttar aðstæður á hverjum tíma.

***

Samfara aukinni alþjóðavæðingu, meðvitund um margvíslega þýðingu hafsins og auðlinda þess, og umhverfisvitund almennt hefur umfjöllun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins stóraukist á undanförnum árum. Þótt Íslendingar hljóti eðli máls samkvæmt að fagna auknu vægi þessa málaflokks á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, ekki síst að því er varðar varnir gegn mengun hafsins, er ljóst að ýmsar hættur eru þessari þróun samfara. Þannig hefur orðið vart vaxandi viðleitni ýmissa ríkja og félagasamtaka á þessum vettvangi til að koma á hnattrænni stjórn fiskveiða. Ísland hefur lagst eindregið gegn öllum slíkum tilraunum og vísað í því sambandi til hafréttarsamningsins og úthafsveiðisamningsins sem kveða á um að fiskveiðistjórnun skuli ýmist vera í höndum viðkomandi strandríkja innan efnahagslögsögunnar eða svæðisbundinna fiskveiðistofnana á úthafinu.

Í samræmi við þessa afstöðu hefur Ísland beitt sér gegn hvers konar alhæfingum allsherjarþingsins um stöðu fiskstofna í heiminum og um skaðsemi einstakra tegunda veiðarfæra. Sem kunnugt er hafa komið fram tillögur um hnattrænt bann við fiskveiðum með botnvörpu á úthafinu. Þar er um að ræða dæmi um mál þar sem ákvarðanataka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna getur haft bein áhrif á þjóðarhagsmuni Íslendinga. Við höfum beitt okkur gegn slíku banni og tekist hefur að beina málinu í eðlilegri farveg, þ.e. að hvetja ríki og svæðastofnanir til að bæta stjórn sína á veiðum sem haft geta skaðleg áhrif á viðkvæm vistkerfi hafsins. Íslensk stjórnvöld hafa gengið á undan með góðu fordæmi, gripið til sérstakra verndarráðstafana í þessu skyni innan efnahagslögsögunnar og staðið að slíkum ráðstöfunum á vettvangi svæðastofnana að því er úthafið varðar.

Í umræðu um hafréttarmál á alþjóðavettvangi hafa einnig tekist á sjónarmið um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda hafsins annars vegar og öfgafull friðunarsjónarmið hins vegar. Íslendingar taka virkan þátt í þeirri umræðu og halda mjög á lofti rétti ríkja til sjálfbærrar auðlindanýtingar á grundvelli hafréttarsamningsins og skyldra samninga.

***

Á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld þurft að glíma við ýmis önnur mikilvæg viðfangsefni á sviði hafréttar, svo sem lögsögumál. Afmörkun efnahagslögsögunnar gagnvart lögsögu nágrannalandanna verður að fullu lokið þegar gengið verður frá formlegum samningi við Færeyjar síðar á þessu ári. Samkomulag um skiptingu hafsvæðisins milli landanna liggur fyrir, tæknilegri endurskoðun grunnlínupunkta landanna er lokið og einungis eftir að reka smiðshöggið á verkið.

Unnið er ötullega að undirbúningi greinargerðar til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna. Mælingum á landgrunnssvæðum, sem samsvara þrettánföldu landsvæði Íslands, er lokið og við hefur tekið úrvinnsla þeirra og samning greinargerðarinnar. Þótt frestur okkar til að skila greinargerð til nefndarinnar sé til maí 2009 er gert ráð fyrir að henni verði skilað þegar á næsta ári. Áætlaður heildarkostnaður vegna verkefnisins er um 700 milljónir króna.

Samkvæmt hafréttarsamningnum skulu strandríki, sem gera tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna, skila greinargerð um ytri mörk landgrunns síns til landgrunnsnefndarinnar. Nefndin gerir í framhaldi af því tillögur þar að lútandi og skulu mörk landgrunnsins, sem strandríki ákveður á grundvelli þessara tillagna, vera endanleg og bindandi.

Af Íslands hálfu er gert tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna á þremur svæðum: Á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall-svæðinu í suðri og í Síldarsmugunni í austri. Aðeins Ísland gerir tilkall til landgrunnsréttinda á Reykjaneshrygg, en á Hatton Rockall-svæðinu hafa Bretland, Írland og Færeyjar einnig sett fram kröfur um slík réttindi. Í Síldarsmugunni gerir Noregur einnig kröfu til landgrunnsréttinda, bæði út frá meginlandi Noregs og Jan Mayen, svo og Færeyjar.

Landgrunnsnefndin er ekki bær til að fjalla um ytri mörk umdeildra svæða sem tvö eða fleiri ríki hafa gert tilkall til nema með samþykki allra deiluaðila. Af þessum sökum er gert ráð fyrir að greinargerð Íslands til landgrunnsnefndarinnar muni einskorðast við landgrunnið á Reykjaneshrygg nema samkomulag takist áður um skiptingu landgrunns á Hatton Rockall-svæðinu eða í Síldarsmugunni.

Líkur eru taldar á því að unnt verði að vinna olíu á Hatton Rockall-svæðinu, en minni horfur eru á að olíu sé að finna á Reykjaneshrygg eða í Síldarsmugunni. Rétt er hins vegar að hafa í huga að athygli manna beinist í vaxandi mæli að öðrum auðlindum á landgrunninu og með tækniframförum eykst bæði vitneskja um þessar auðlindir og möguleikar á nýtingu þeirra. Líklegt er að réttindi yfir landgrunninu fái aukna þýðingu í framtíðinni og mikilvægt er því að öðlast yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum.

Til þess að lausn náist um afmörkun landgrunns á umdeildum svæðum á borð við Hatton Rockall-svæðið og Síldarsmuguna og raunhæft sé að nýta auðlindir sem þar er að finna þarf tvennt að koma til. Í fyrsta lagi þurfa viðkomandi ríki að komast að samkomulagi um skiptingu landgrunnsins sín á milli. Í öðru lagi þurfa ríkin síðan að leggja sameiginlega greinargerð fyrir landgrunnsnefndina um ytri mörk landgrunnsins, þ.e. mörkin milli landgrunnsins og alþjóðlega hafsbotnssvæðisins, og ákvarða þau á grundvelli tillagna nefndarinnar.

Haustið 2001 átti Ísland frumkvæði að óformlegum viðræðum allra deiluaðila í Hatton Rockall-málinu í Reykjavík. Var um að ræða fyrsta fjórhliða fund þeirra aðila sem gera tilkall til landgrunns á þessu svæði og markaði fundurinn því tímamót í sögu málsins. Viðræðunum hefur síðan verið reglulega fram haldið og ljóst er að staða Íslands í málinu hefur styrkst við þessa þróun mála.

Undanfarnar vikur hafa síðan farið fram óformlegar viðræður milli Íslands, Noregs og Færeyja um hugsanlega skiptingu landgrunnsins í Síldarsmugunni. Þokast hefur í samkomulagsátt og standa vonir til þess að unnt verði að ljúka málinu á næstunni.

***

Af framansögðu er ljóst að barátta Íslendinga fyrir yfirráðum yfir auðlindum hafsins kringum landið heldur áfram og henni lýkur í raun aldrei. Standa þarf dyggan vörð um það sem áunnist hefur og takast á við ný og mikilvæg viðfangsefni á sviði hafréttar eins og landgrunnsmálin eru gott dæmi um. Sem fyrr leggja stjórnvöld áherslu á að gæta hagsmuna Íslendinga í hafréttarmálum og er til marks um það að Ísland er enn í fremstu röð á þessu sviði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics