Hoppa yfir valmynd

Nr. 118, 17. desember 1998 Hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna og Breta gagnvart Írak.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________

Nr. 118

Utanríkisráðuneytið telur hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta gagnvart Írak vera óumflýjanlegar, en þær hafa þann tilgang að eyða möguleikum Írakstjórnar til að búa til gereyðingarvopn.

Utanríkisráðuneytið lýsir ennfremur ábyrgðinni á þessum aðgerðum á hendur stjórnvöldum í Írak, sem hafa ítrekað brotið ákvæði ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 687 um vopnahlésskilmálana eftir Persaflóastríðið. Með sífelldum undanbrögðum hefur Íraksstjórn hindrað störf eftirlitsnefndar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (UNSCOM) í landinu, sem hefur starfað samkvæmt vopnahlésskilmálunum að því að eyða möguleikum Írakstjórnar til að búa til gereyðingarvopn, þ. m. t. efnavopn og lífefnavopn.

Starf eftirlitsnefndarinnar í Írak hefur borið mikinn árangur. Síðan 1991 hafa eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna eytt 48 Scud-eldflaugum, 40.000 efnavopnum, 690 tonnum af eiturefnum, 3000 tonnum af efnum til eiturefnagerðar og auk þess eyðilagt lífefnavopnaverksmiðjuna í Al Hakam.

Þrátt fyrir það hafa Írakar enn ekki gert grein fyrir 30.000 spengjuoddum fyrir efnavopn og 4000 tonnum af efnum til eiturefnagerðar. Nauðsynlegt er því, að eftirlitsnefndin fái tækifæri til að ljúka ætlunarverki sínu.

Alræðisstjórnin í Írak hefur farið með ófriði á hendur nágrannaþjóðum og meira að segja beitt eiturvopnum gegn óbreyttum borgurum í Írak. Almenningur í Írak hefur liðið miklar þjáningar vegna árásarstefnu og mannréttindabrota Saddams Hússeins og valdaklíku hans. Það er fyrir löngu kominn tími til að þessum þjáningum linni. Sameinuðu þjóðirnar hafa gert allt, sem í þeirra valdi hefur staðið, til að tryggja mannúðaraðstoð til almennings í Írak, m.a. með því að veita Íraksstjórn undanþágu frá viðskiptabanni og selja mikið magn af olíu til að greiða fyrir matvæli handa almenningi. Ljóst er, að alræðisstjórnin hirðir lítt um hag almennings í landinu.

Framferði alræðisstjórnarinnar í Írak ógnar stöðugleika og öryggi í þessum heimhluta og þar með friði í heiminum. Hið alþjóðlega samfélag krefst þess, að Íraksstjórn fari að ákvæðum ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.


                              Utanríkisráðuneytið
                              Reykjavík, 17. desember 1998

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics