Hoppa yfir valmynd

Nr. 007, 4. febrúar 2000, Athugun WTO á viðskiptastefnu Íslands

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 007


Fyrstu athugun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) á viðskiptastefnu Íslands lauk í Genf í Sviss í dag. Samkvæmt samkomulagi aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er gerð regluleg úttekt á viðskiptastefnu þeirra og kemur röðin að Íslandi á sex ára fresti. Sambærileg athugun var gerð á vegum GATT árið 1994.
Í athugun sem þessari er fjallað um flest þau atriði er hafa áhrif á viðskiptastefnu Íslands og þróun utanríkisviðskipta, s.s. þátttöku Íslands í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi, almenna efnahagsþróun á Íslandi, þróun í gengis- og gjaldeyrismálum, þróun einstakra atvinnugreina, viðskiptaþróun og innflutningsreglur.
Úttektin hófst með komu sérfræðinga frá skrifstofu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til Íslands í ágúst sl. í því skyni að afla upplýsinga og ræða við fulltrúa íslenskra stjórnvalda og hagsmunaaðila. Í framhaldi af því var gerð ítarleg skýrsla um viðskiptastefnu Íslands. Jafnframt gerðu íslensk stjórnvöld stutta skýrslu fyrir sitt leyti. Á fundinum í Genf gafst fulltrúum aðildarríkjanna síðan kostur á að tjá sig um skýrslurnar og beina spurningum til íslensku sendinefndarinnar.
Fjölmargir fulltrúar aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á fundinum hrósuðu íslenskum stjórnvöldum fyrir frjálsræði í viðskiptum og markverðan árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum á undanförnum árum. Vakin var athygli á árangursríkum kerfisbreytingum í átt til aukins frjálsræðis. Fram kom að einhæfni íslensks atvinnulífs væri áhyggjuefni en íslensk stjórnvöld voru hvött til að stuðla að frekari fjölbreytni þess. Varðandi viðskiptastefnu landsins beindist athyglin helst að landbúnaðarmálum og sjávarútvegi.
Hátt í hundrað skriflegar spurningar bárust frá sjö aðildarríkjum sem íslenska sendinefndin svaraði á fundinum. Helstu viðskiptalönd Íslands óskuðu eftir skýringum á nokkrum atriðum varðandi reglur um viðskipti með landbúnaðarvörur, fjárfestingar í sjávarútvegi og kvótakerfið.
Aðildarríkin fjölluðu um þær umtalsverðu breytingar sem gerðar hafa verið á íslensku landbúnaðarstefnunni á undanförnum árum og hvöttu stjórnvöld til að halda áfram á þessari braut. Því var jafnframt beint til íslenskra stjórnvalda að einfalda reglur um vörugjöld.
Íslenskum stjórnvöldum var sérstaklega hrósað á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fyrir frumkvæði sitt í baráttunni gegn ríkisstyrkjum í sjávarútvegi.
Til frekari glöggvunar fylgir samantekt stjórnanda fundarins á niðurstöðu hans (hjálagt). Einnig verður hægt að nálgast ítarlegri upplýsingar um athugunina á eftirfarandi vefslóð: http://www.wto.org/wto/

- SCAN0830.TIF




Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 4. febrúar 2000.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics