Hoppa yfir valmynd

Fundur utanríkisráðherra með forseta Alþjóðabankans

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Paul Wolfowitz, forseti Alþjóðabankans
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Paul Wolfowitz, forseti Alþjóðabankans

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 068

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með Paul Wolfowitz forseta Alþjóðabankans. Á fundinum voru rædd málefni sem eru ofarlega á baugi í starfsemi bankans, þ.á.m. aukin áhersla hans á orkumál og baráttu gegn spillingu. Rætt var um tvíhliða samstarf Íslands og Alþjóðabankans á sviði fiskimála og endurnýjanlegra orkugjafa. Þá var mikilvægi þátttöku kvenna í uppbyggingu þróunarlanda áréttað.

Alþjóðabankinn, og undirstofnanir hans, eru stærsta þróunarstofnun heims. Aðstoð bankans við fátækustu þróunarlöndin nemur um 10 milljörðum Bandaríkjadala árlega og lánveitingar til millitekjulanda um 14 milljörðum dala. Á árinu 2006 leggja íslensk stjórnvöld um 275 m.kr. til verkefna á vegum Alþjóðabankans. Stærstur hluti framlagsins, 205 m.kr., rennur til aðstoðar Alþjóðaframfarastofnunarinnar (IDA) í fátækustu þróunalöndunum. Auk þess styðja íslensk stjórnvöld fjölþjóðleg samstarfsverkefni bankans á sviði fiskimála, kallað PROFISH, og á sviði orkumála, kallað ESMAP.

Þá hafa íslensk stjórnvöld aukið samstarfið við Alþjóðalánastofnunina (IFC), sem er sú dótturstofnun Alþjóðabankans sem stuðlar að eflingu einkaframtaks í þróunarlöndunum, annað hvort með beinum fjárfestingum eða lánveitingum til fyrirtækja. Íslenskur ráðgjafasjóður er starfræktur á vegum IFC, auk þess sem íslensk stjórnvöld hafa fjármagnað sérstaklega úttekt IFC á viðskiptaumhverfi í tuttugu smáríkjum.



Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics