Hoppa yfir valmynd

Alþjóðleg ráðstefna um #Metoo hefst á morgun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setur alþjóðlega ráðstefnu um #metoo eða #églíka í Hörpu á morgun og stendur ráðstefnan til 19. september nk. Ráðstefnan hefst kl. 14:30 með lykilerindum og umræðum norrænna ráðherra jafnréttismála.

Á morgun verður meðal annars sagt frá tillögum óbirtrar skýrslu UN WOMEN undir yfirskriftinni What will it take? Promoting Cultural Change to End Sexual Harassment. Í skýrslunni eru greindar þær breytingar sem taldar eru nauðsynlegar í kjölfar #metoo, bæði formlegar breytingar og samfélagslegar. Einnig verður fjallað um niðurstöður viðamikillar rannsóknar á umfangi kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði sem unnin var að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra. Þá mun Angela Davis, prófessor og rithöfundur, flytja lykilerindi um áhrif #metoo hreyfingarinnar.

Yfir 800 manns hafa skráð sig til þátttöku á ráðstefnunni og er hún því með stærri ráðstefnum um #metoo sem haldin hefur verið. Um áttatíu fyrirlesarar taka þátt í ráðstefnunni úr röðum fræðafólks, aktívista, stjórnmálamanna og sérfræðinga. Roxane Gay, Liz Kelly, Marai Larasi og Cynthia Enloe eru meðal þeirra heimsfrægu fyrirlesara sem taka til máls á ráðstefnunni.

Ráðstefnan er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og er skipulögð í samvinnu við RIKK – rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Nú í haust verða tvö ár liðin frá því að #metoo-bylgjan hófst haustið 2017 þegar konur um allan heim greindu frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni.

Tags

5. Jafnrétti kynjanna

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics