Hoppa yfir valmynd

Utanríkisráðherra fundar í Lundúnum vegna framtíðarviðræðna við Bretland

Guðlaugur Þór Þórðarson og Tom Tugendhat, formaður utanríkismálanefndar breska þingsins - myndUtanríkisráðuneytið

Viðræður Íslands og Bretlands um framtíðarsamskipti ríkjanna voru í brennidepli á fundum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra með breskum ráðherrum og þingmönnum í dag og í gær. 

Á fundi með Ranil Jayawardena, ráðherra utanríkisviðskipta, lagði Guðlaugur Þór áherslu á að ljúka viðræðum um nýjan fríverslunarsamning í tæka tíð svo hann gæti tekið gildi í árslok. Þá áttu þau Wendy Morton, ráðherra Bretlands fyrir málefni Evrópu og Ameríku, fund þar sem sterk tengsl Íslands og Bretlands voru efst á baugi en einnig ástandið í Hvíta-Rússlandi og eitrunin sem Alexej Navalní, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, var nýverið fyrir. Þá hitti Guðlaugur Þór Tom Tugendhat, formann utanríkismálanefndar breska þingsins, og ræddi sameiginlega hagsmuni varðandi viðskipti með sjávarafurðir við þingmenn Grimsby- og Humbersvæðið, þau Martin Vickers og Lia Nici.  

Guðlaugur Þór lýsti yfir ánægju með viðræðurnar við bresku ráðherrana og þingmennina að fundum loknum. „Bæði íslenskum og breskum stjórnvöldum er fyllilega ljóst hve miklir hagsmunir eru í húfi enda leggja Bretar áherslu á viðræður við Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES. Markmið okkar eru skýr þar sem við vinnum út frá sérstöðu Íslands og kjarnahagsmunum. Það er mikilvægt að nota þetta tækifæri til að bæta viðskiptakjörin þar sem hægt er og tryggja samkeppnisstöðu okkar fyrirtækja. Fríverslunarsamningur styrkir enn fremur pólitísk tengsl landanna og það er ekki síður mikilvægt.“

Framtíðarviðræður Íslands og Bretlands hófust formlega í sumar, nokkru seinna en til stóð vegna kórónuveirufaraldursins. Fundirnir í Lundúnum í gær og í dag voru nýttir til að ræða gang viðræðnanna og mikilvægi þess að viðhalda sterkum sögulegum tengslum ríkjanna t.a.m. á sviði viðskipta, menntunar og menningar. 

Samningaviðræður við Bretland eru afar umfangsmiklar en skiptast í megindráttum í tvennt - fríverslunarviðræður og úrlausn mála sem falla utan þeirra. Fríverslunarviðræðurnar, sem m.a. taka á markaðsaðgangi fyrir vörur, þjónustu og fjárfestingu, ganga vel. Fyrir utan fríverslunarviðræðurnar liggur þegar fyrir loftferðasamningur á milli ríkjanna sem tekur gildi í lok árs. Þá ræða íslensk stjórnvöld við Breta um framtíðarsamstarf ríkjanna á mikilvægum sviðum á borð við almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, dvalarleyfi, rannsóknir og menntun, flugöryggismál, sjávarútvegsmál og innra öryggi. 

  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 1
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 2
  • Meðfylgjandi fréttamynd nr 3

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics

This website uses cookies to ensure you get the best experience on our website. Read more