Hoppa yfir valmynd

Banni við botnvörpuveiðum á úthafinu afstýrt

Lokið er tveggja mánaða samningaviðræðum um texta ályktana allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um hafréttar- og fiskveiðimál og er gert ráð fyrir að ályktanirnar verði formlega samþykktar 16. nóvember nk. Þann dag verður þess minnst í allsherjarþinginu að 10 ár eru liðin frá gildistöku hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.

Á undanförnum árum hefur orðið vart vaxandi viðleitni ýmissa ríkja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að koma á hnattrænni stjórn fiskveiða. Ísland hefur ásamt öðrum ríkjum lagst eindregið gegn öllum slíkum tilraunum og vísað í því sambandi til hafréttarsamningsins og úthafsveiðisamningsins sem kveða á um að fiskveiðistjórn sé í höndum viðkomandi strandríkja eða svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana, eftir því sem við á. Ísland hefur á þessum vettvangi jafnframt beitt sér gegn hvers konar alhæfingum um stöðu fiskistofna í heiminum og um skaðsemi einstakra tegunda veiðarfæra.

 

Í fyrrgreindum samningaviðræðum lagði Kostaríka fram tillögu um hnattrænt bráðabirgðabann við fiskveiðum með botnvörpu á úthafinu og Noregur lagði fram tillögu sem hneig í sömu átt. Einungis nokkur ríki lýstu yfir stuðningi við tillögurnar og lagðist Ísland ásamt mörgum öðrum ríkjum ákveðið gegn þeim og benti á að það væri á valdi viðkomandi ríkja eða svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana að meta þörfina fyrir bann við notkun botnvörpu á einstökum hafsvæðum og taka ákvarðanir um bann þar sem það ætti við. Svo fór að tillögurnar um hnattrænt botnvörpubann á úthafinu náðu ekki fram að ganga og tókst þess í stað samkomulag um að beina því til ríkja og svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana, eftir því sem við á, að bæta stjórn á veiðum sem haft gætu skaðleg áhrif á viðkvæm vistkerfi hafsins.

 

Þess ber að geta að ýmis þeirra ríkja, sem voru reiðubúin að styðja botnvörpubann eða aðrar strangar aðgerðir á úthafinu, lögðust gegn samþykkt hvers konar texta er fjallaði um verndun viðkvæmra vistkerfa fyrir skaðlegum veiðiaðferðum innan efnahagslögsögunnar. Af Íslands hálfu var bent á að hér væri um tvískinnung að ræða, enda væri síst minni þörf fyrir verndun vistkerfisins innan efnahagslögsögunnar en utan. Varð niðurstaðan sú að sá texti, sem samþykktur var, nær hvort tveggja til efnahagslögsögunnar og úthafsins.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics