Hoppa yfir valmynd

Nr. 018, 12. mars 1999: Ráðstefna í Genf dagana 15.-16. mars n.k.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 018

Dagana 15.-16. mars n.k. verður haldin í Genf ráðstefna háttsettra aðila um alþjóðaviðskipti og umhverfismál á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Á fundinum er fjallað um leiðir til að samræma stefnumörkun á sviði alþjóðaviðskipta og umhverfismála þannig að frjáls viðskipti stuðli að sjálfbærri þróun og að ráðstafanir á sviði umhverfismála hafi ekki í för með sér óréttmæt viðskiptahöft. Ráðstefnan er haldin í tengslum við væntanlega samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem hefst í lok þessa árs. Áhugi er á meðal margra ríkja, þ.á m. Norðurlandanna, að umhverfismál verði eitt af viðfangsefnum samningalotunnar.
Vegna ráðstefnunnar hefur Ísland ásamt nokkrum öðrum ríkjum átt frumkvæði að því að lögð er fram yfirlýsing um umhverfislegan og viðskiptalegan ávinning af því að afnema ríkisstyrki í sjávarútvegi. Eins og fram kemur í meðfylgjandi yfirlýsingu stuðla ríkisstyrkir í sjávarútvegi að ofveiði víða um heim. Samkvæmt mati Alþjóðabankans nema ríkisstyrkir til sjávarútvegs, sem taldir eru skaðlegir umhverfinu, um ISK 1000-1500 milljörðum. Að mati þeirra sem styðja yfirlýsinguna væri þessu fjármagni betur varið til annarra verkefna er stuðla að sjálfbærri þróun, auk þess sem afnám ríkisstyrkja myndi draga verulega úr umframveiðigetu og þar með stuðlað að aukinni vernd og sjálfbærri nýtingu fiskistofna um heim allan. Í yfirlýsingunni, sem fylgir hjálagt, er skorað á ríki að skuldbinda sig til að afnema ríkisstyrki í sjávarútvegi og taka höndum saman innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og vinna á þeim vettvangi að afnámi slíkra styrkja.
Fyrir hönd Íslands sitja ráðstefnuna Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Benedikt Jónsson fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Þórir Ibsen sendiráðunautur og Þórður Ingvi Guðmundsson sendiráðsritari.

Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 12. mars 1999.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics