Hoppa yfir valmynd

Nr. 006, 29. janúar 1999: Opinber heimsókn utanríkisráðherra til Taílands

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu



Nr. 006

Opinber heimsókn Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, til Taílands hófst í gær 28. janúar og stendur til 30. janúar. Með í för er 21 viðskiptaaðili.

Í upphafi heimsóknarinnar átti utanríkisráðherra fundi með utanríkisráðherra Tælands, Surin Pitsuwan og Supachai Panitchpakdi, varaforsætisráðherra og ráðherra viðskiptamála.

Á fundi utanríkisráðherranna kom fram mikill áhugi á að auka tvíhliða samstarf þjóðanna, einkum á sviði sjávarútvegs. Jafnframt var rætt um að auka samskipti EFTA og ASEAN-samtakanna.

Á fundunum tilkynnti utanríkisráðherra þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að styðja framboð Supachai Panitchpakdi í embætti aðalframkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Á fundinum með tælenska viðskiptaráðherranum voru málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar rædd, einkum áherslur landanna í næstu viðskiptalotu sem hefst síðla þessa árs.

Í dag fór Halldór Ásgrímsson í kurteisisheimsókn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Tælendinga þar sem m.a. var rætt um möguleika á auknum samskiptum ríkjanna á sviði hafrannsókna, þar sem Íslendingar gætu miðlað af þekkingu sinni til Tælendinga.

Þá efndu íslensku fyrirtækin til ráðstefnu og sýningar þar sem Tælendingum var boðið að kynnast vörum og þjónustu frá Íslandi og lauk ráðstefnunni með móttöku utanríkisráðherra fyrir gesti íslensku fyrirtækjanna og tælenska ráðamenn.

Í samvinnu við Evrópudeild Chulalong háskólans í Bangkok, hélt Halldór Ásgrímsson einnig erindi undir yfirskriftinni "The European Integration Process as Seen From Iceland" fyrir kennara og nemendur háskólans.

Opinberri heimsókn utanríkisráðherra lýkur á morgun 30. janúar með heimsóknum í tælensk fyrirtæki á sviði sjávarútvegs.

Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 29. janúar 1999.

Tags

Contact us

Tip / Query
Spam
Please answer in numerics